Eldsvoðinn í Úlfarsárdal í kvöld var í íbúð mannsins sem handtekinn var á dögunum eftir að hann birti myndband af hrottafenginni líkamsárás á Facebook. Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.
Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við blaðið að rannsókn á eldinum sé á frumstigi. Íbúi sem Fréttablaðið ræddi við fyrr í kvöld sagðist telja að einhverju hefði verið kastað inn um glugga íbúðarinnar skömmu fyrir eldsupptök.
Maðurinn hafði birt myndbandið á Facebook þar sem meðal annars mátti sjá mann kýla og sparka í höfuð annars manns.
Myndbandið var birt á Facebook síðu mannsins sama dag og árásarmaðurinn var handtekinn. Mennirnir sem sáust í myndbandinu virðast ekki hafa verið allsgáðir þegar það var tekið upp en aldrei sést í manninn sem hélt á símanum sem tók upp myndbandið.
Elín segir að tæknideild lögreglunnar starfi nú á vettvangi. Samkvæmt slökkviliðinu er nokkuð tjón vegna eldsins. Aðstoðaryfirlögregluþjónninn segir allt of snemmt að segja til um hvort um íkveikju sé að ræða áður en tæknideildin hefur athafnað sig.
Fréttablaðið ræddi við nokkra íbúa í Úlfarsárdal í kvöld. Einn sagði að íbúum stæði stuggur af manninum, margir telji að eldurinn í kvöld sé einhverskonar hefndaraðgerð vegna líkamsárásarinnar. Íbúar væru skelkaðir vegna málsins.