Elds­voðinn í Úlfarsár­dal í kvöld var í íbúð mannsins sem hand­tekinn var á dögunum eftir að hann birti mynd­band af hrottafenginni líkamsárás á Facebook. Þetta herma heimildir Frétta­blaðsins.

Elín Agnes Kristínar­dóttir, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn, segir í sam­tali við blaðið að rann­sókn á eldinum sé á frum­stigi. Íbúi sem Frétta­blaðið ræddi við fyrr í kvöld sagðist telja að ein­hverju hefði verið kastað inn um glugga í­búðarinnar skömmu fyrir elds­upp­tök.

Maðurinn hafði birt mynd­bandið á Face­book þar sem meðal annars mátti sjá mann kýla og sparka í höfuð annars manns.

Mynd­bandið var birt á Face­­book síðu mannsins sama dag og árásarmaðurinn var hand­tekinn. Mennirnir sem sáust í mynd­bandinu virðast ekki hafa verið alls­gáðir þegar það var tekið upp en aldrei sést í manninn sem hélt á símanum sem tók upp mynd­bandið.

Elín segir að tækni­deild lög­reglunnar starfi nú á vett­vangi. Sam­kvæmt slökkvi­liðinu er nokkuð tjón vegna eldsins. Að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónninn segir allt of snemmt að segja til um hvort um í­kveikju sé að ræða áður en tækni­deildin hefur at­hafnað sig.

Frétta­blaðið ræddi við nokkra íbúa í Úlfarsárdal í kvöld. Einn sagði að í­búum stæði stuggur af manninum, margir telji að eldurinn í kvöld sé ein­hvers­konar hefndar­að­gerð vegna líkamsárásarinnar. Í­búar væru skelkaðir vegna málsins.