Ungmenni kveiktu varðeld á tjaldsvæði í Skorradal í gærkvöldi, sem skapaði mikla hættu á gróðureldi sökum mikilla þurrka á svæðinu. Aðrir gestir bentu þeim fljótt á hættuna og eldurinn var þá slökktur.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi á Vesturlandi vegna hættu á gróðureldum, en allur gróður er skraufþurr vegna langvarandi þurrka á svæðinu. Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliðinu í Borgarbyggð, segir í samtali við Fréttablaðið að eldurinn hafi sem betur fer verið slökktur mjög snemma, um leið og aðrir gestir bentu ungmennunum á hættuna, en að vissulega hafi skapast hætta þegar hann var kveiktur, því hann geti breiðst út við minnsta tilefni.

Í samtali við Vísi sagði Þórður að það megi líta á þessa hegðun sem tilræði við almannaöryggi, hún sé litin mjög alvarlegum augum og málið verði tekið lengra.

Þórður fór svo á vettvang í morgun með lögreglu og eftir að hafa kynnt sér aðstæður og rætt við ungmennin og aðra gesti á svæðinu sagði hann að það hafi einfaldlega verið um óvitaskap að ræða og að það yrðu líklega engar afleiðingar fyrir ungmennin í þetta sinn, fólk læri bara af þessu. Hann bætti þó við að það sé lögreglu að ákveða hvort kæra verði gefin út vegna málsins.

Það barst einnig ábending um að hugsanlega hefði eldur verið kveiktur niðri við vatn, en svo var ekki, heldur hafði heitavatnslögn farið í sundur og gufa steig upp þegar heita vatnið rann út í vatn.

Þórður fagnaði því að fólk sé greinilega á varðbergi gagnvart gróðureldum og meðvitað um hættuna, fyrst strax var látið vita.