Lög­regla er með tvo í haldi eftir að eldur kom upp í í­búðar­hús­næði í Dals­hrauni í Hafnar­firði á fjórða tímanum í dag. Slökkvi­starfi lauk um klukkan sex nú síð­degis en fjórum var bjargað af þaki hússins og þá þurfti á fimmta tug manns að yfir­gefa hús­næði sitt.

UPPFÆRT kl. 21:00

Að sögn Skúla Jónssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Hafnarfirði, var einn fenginn í skýrslutöku vegna eldsvoðans en einungis sem vitni í málinu. Skýrslutöku lauk í kringum sjö og er enginn í haldi lögreglu.

Greint var frá því í kvöld­fréttum RÚV að tveir væru í haldi en ekki liggur fyrir hvers vegna það er eða hvernig viðkomandi tengjast eldsvoðanum. Sagt var að lög­regla hygðist spyrja við­komandi spurninga vegna málsins. Slökkvi­liðið er að ljúka störfum þessa stundina en hyggst á­fram vakta húsið fram á kvöld vegna þess hve um­fangs­mikill eldurinn var í dag.

Rauði krossinn mun sjá um að út­vega fólkinu sem yfir­gefa þurfti hús­næði sitt gistingu í kvöld. Við slökkvi­starfið lak tals­vert mikið af vatni inn í verslun Húsa­smiðjunnar sem er með verslun á tveimur hæðum fyrir neðan í­búðina.

„Það lek­ur af efri hæð­inn­i ansi víða og það fer nið­ur. Við erum á tveim­ur hæð­um og þett­a fer alveg nið­ur en það lek­ur í raun enn­þá,“ sagði Atli Ólafs­son, rekstrar­stjóri verslunarinnar, í sam­tal­i við Frétt­a­blað­ið í kvöld.