Eldur kviknaði óvænt í rafhlöðu Tesla bifreiðar í Sacramento borg í Kaliforníu ríki í Bandaríkjunum nú á laugardag. Þetta kemur fram á réttavef FOXktvu.

Að sögn slökkviliðs og lögreglu á staðnum hafði bifreiðinni verið ekið á venjulegum hraða þegar allt í einu kviknaði eldur í henni. Ökumaður bifreiðarinnar sagði að ekkert hefði verið athugavert við bílinn áður en eldurinn kom upp.

Engum varð meint af eldinum en slökkvilið notaði um 28 þúsund lítra af vatni til þess að halda eldinum í bifreiðinni niðri. Það er svipað magn af vatni og notað er við húsbruna að sögn slökkviliðsins í Sacramento.

Eldur sem kemur upp í rafhlöðum getur brunnið ansi glatt og þurfti því að færa bílinn í holu sem fyllt hafði verið með vatni.