Útkallið barst um korter yfir þrjú í nótt. Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu í Hveragerði og á Selfossi voru sendir svæðið. Milli 20 og 30 slökkviliðsmenn komu að því að slökkva eldinn.

Búðirnar voru mannlausar en eldurinn kviknaði í mötuneyti búðanna.

Heilmikill eldur logaði þegar að slökkviliðið mætti á svæðið en vel gekk að slökkva eldinn að sögn slökkviliðsstjóra.

„Það kviknaði í suðurenda búðanna sem vildi vel til. Það var stíf norðanátt í nótt sem hjálpaði til við að slökkva eldinn. Hefði kviknað hinum megin hefði þessi eining líklega farið alveg. Vinnubúðirnar eru samsettar úr tíu einingum en tvær gjöreyðilögðust og töluverðar skemmdir eru annars staðar vegna hita og reyks,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.

Ekkert vatn er á staðnum en tankbílar voru notaðir til að ferja vatn að vettvangi brunans.

„Þetta eru erfiðar einingar að eiga við. Þær eru gerðar úr efni sem er hálfgert frauðplast og er mjög eldfimt og eitrað þegar það brennur. Eftir að vatnið var komið gekk þetta hratt og vel fyrir sig en þetta var talsverð vinna," segir Pétur.

Ekki liggur fyrir hver orsök eldsins voru.