Allt tiltækt slökkvilið var kallað út á sjötta tímanum í dag eftir að eldur kviknaði í bíl inni á verkstæði í Skeifunni.

Búið er að slökkva eldinn og eru slökkviliðsmenn á vettvangi að reykræsta. Enginn slasaðist.

„Það kviknaði í bíl inni á verkstæðinu. Við sendum allar stöðvar á staðinn en síðan þegar fyrsti bíll kemur á staðinn þá eru þeir fljótir að slá á þetta og þá afturkölluðum við alla aðstoð,“ segir vakthafandi varðstjóri slökkviliðs í samtali við Fréttablaðið.

Bíllinn var inni á verkstæðinu, sem er í grennd við ELKO og Vínbúðina, þegar kviknaði í honum en ekki er vitað hvernig það gerðist að sögn varðstjóra.

Til allrar lukku voru slökkviliðsmenn fljótir að slökkva eldinn eftir að þeir komu á vettvang.

„Snör viðbrögð okkar komu í veg fyrir meira tjón.“