Eldur kom upp í járnblendiverksmiðju Elkem á Grundartanga um tvö leytið í nótt og var allt tiltækt slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar kallað út.

Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi, segir um þrettán starfsmenn hafa verið til vinnu í verksmiðjunni sem starfar allan sólarhringinn þegar eldurinn kviknaði og að þeir hafi náð að halda eldinum niðri með slökkvitækjum þar til slökkvilið kom.

Að sögn Álfheiðar brugðust starfsmennirnir skjótt við. „Það er alveg einstakt fólk sem vinnur hjá þessari verksmiðju og þegar svona kemur upp þá hlaupa bara allir til og hjálpast að. Það var það sem gerðist í nótt og þeir notuðu allt tiltækt til að koma í veg fyrir frekara tjón þar til að slökkvilið kom.“

Álfheiður segir starfsmennina hafa borið sig vel eftir nóttina og að þeir séu farnir heim til að hvílast.

Aðgerðum lauk í nótt

Aðspurð um næstu skref segir Álfheiður að nú þurfi að fara yfir málið og að strax verði hafist handa við að undirbúa viðgerð á einum af þremur ofnum verksmiðjunnar sem skemmdir urðu á.

„Við erum bara að ná utan um stöðuna og dagurinn í dag fer í að ná utan um tjónið og gera viðgerðaplan,“ segir Álfheiður.

Eldsupptök eru enn óljós en að sögn Álfheiðar er mikið unnið með fljótandi málm í verksmiðjunni. „Það er í sjálfu sér ekkert ólíklegt að það hafi komist blossi í einhvern búnað en við vitum það ekki, ég er bara með ágiskanir.“

Samkvæmt Álfheiði lauk aðgerðum slökkviliðsins í nótt. „Strákarnir okkar kláruðu öll slökkvitækin þannig að þeir voru nú fjórir hjá okkur þar til það komu fleiri slökkvitæki á staðinn.“

Sjálf var Álfheiður að pakka niður hjólhýsinu sínu þegar Fréttablaðið náði tali af henni en hún var á leiðinni heim úr ferðalagi til að meta stöðuna.