Eldur blossaði upp á ný um átta leytið í kvöld í þaki einbýlishússins við Kaldasel í Breiðholti sem kviknaði í í morgun.

Slökkviliði barst tilkynning um eldinn klukkan tíu mínútur yfir átta í kvöld og var allt tiltækt lið kallað á vettvang. Þegar slökkvilið mætti á vettvang stóð húsið ljósum logum á ný.

Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við Fréttablaðið að þetta geti gerst eftir stóra og mikla bruna. „ Það liggur mikill hiti í efni og timbri og því sem hefur brunnið og þá á það til að kvikna aftur í. Þetta er ekki óþekkt og þess vegna erum við oft með vakt löngu eftir slíka bruna. Að vísu vorum við farnir af vaktinni þegar eldurinn blossaði á ný í kvöld," segir Sigurjón.

Slökkvistarf gengur ágætlega, en búið er að reisa körfubíla og slökkviliðið reynir nú að komast betur að upptökunum en húsið er mikið skemmt eftir brunan í morgun.

Slökkvi­lið var kallað út á sjöunda tímanum í morgun vegna elds­voða í sama húsi. Maður sem var inni í einbýlishúsinu þegar eldur kviknaði var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild í morgun. Ekki er vitað hvert ástand hans er. Mikinn reyk lagði af húsinu og var í­búum í Selja­hverfi ráð­lagt að loka gluggum og hækka í ofnum vegna reyksins.

Altjón varð á húsinu í kvöld.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason
Slökkviliðið býst við að starfi ljúki eftir nokkrar klukkustundir.
Fréttablaðið/Valgarður Gíslason