Eldur kviknaði í ytra byrði tanks Malbikunarstöðvarinnar Höfða á Sævarhöfða í Grafarvogi í dag. Útkallið barst um hálf ellefu fyrir hádegi.

Tankurinn inniheldur bik sem er eldfimt tjöruefni en enginn eldur var í tanknum sjálfum og lítið innihald biks. Þetta staðfestir talsmaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu við Fréttablaðið.

Slökkviliðið er enn að störfum á vettvangi og vinnur að því að rífa klæðningu utan af tankinum og þurfti að kalla út aukinn liðsstyrk við verkið. Ekki er enn vitað hver upptök eldsins voru.