Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast síðasta sólarhringinn, en það sem ber hæst var eldur í hraðbanka í verslunarhúsnæði á Bíldshöfða um þrjú leitið í nótt.

„Eldurinn var slökktur þegar við komum á staðinn en töluverður reykur var í húsnæðinu og tók tæpar þrjár klukkustundir að reykræsta húsið,“ segir í færslu Slökkviliðsins á Facebook um málið.

Að auki voru sjö önnur minniháttar útköll fyrir dælubílana meðal annars vegna bilanna í brunakerfum og vatnsleki.

Alls voru boðanir í 108 sjúkraflutningar, þar af 28 forgangsverkefni.

Mynd úr færslu Slökkviliðsins á Facebook.
Mynd/Slökkviliðið á Höfuðborgarsvæðinu