Eldur kom upp í sumarbústað við Þingvallavatn í kvöld. Samkvæmt RÚVkom eldurinn upp í bústað við Miðfell, austanmegin vatnsins nú á áttunda tímanum. Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Árnessýslu var um mikinn eld að ræða og var húsið alelda þegar slökkvilið bar að garði. Óttast var að eldurinn bærist í gróður sem hann og gerði en áhersla var lögð á að hindra frekari útbreiðslu eldsins í gróður og gekk það vel.

Eigandi hússins var einn inni í húsinu þegar eldurinn kom upp og komst hann út að sjálfsdáðum og gerði neyðarlínu viðvart.

Um 20 slökkviliðsmenn eru við vinnu á vettvangi en slökkvistarfi var að mestu leyti lokið um kl. 21.