Lögreglu barst tilkynningu um eld í Framheimilinu á ellefta tímanum í gær en þegar að var komið þá reyndist eldurinn vera í ruslagám við húsið og lítil hætta var á vettvangi.
Þetta er á meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þar kemur einnig fram að á tíunda tímanum í gærkvöldi hafi tilkynning um líkamsárás í Hafnarfirði borist. Meiðsli þolanda voru þó ekki talin alvarleg. Engu að síður gistir gerandinn nú í fangageymslu þar til unnt verður að ræða við hann en gerandinn var undir áhrifum þegar hann var handtekinn
Þá var einnig tilkynnt um þjófnað á matvörum úr verslun í vesturbæ Reykjavíkur á áttunda tímanum. Gerandi var farinn af vettvangi en lögreglumenn þekktu viðkomandi eftir skoðun á myndefni úr öryggismyndavélum.
Samkvæmt lögreglunni var mjög rólegt eftir miðnætti og einungis 4 minniháttar aðstoðarbeiðnir að ræða.