Allar stöðvar slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins voru kallaðar út á öðrum tímanum í nótt vegna elds sem var laus í klæðningu Laugarlækjaskóla. Rétt rúmlega klukkustund tók að ráða niðurlögum eldsins en talsvert rok auðveldaði verkið ekki.

„Við fengum tilkynningu um reyk í klæðningu. Þegar við komum á staðinn þá er þetta eldur við útvegg, staðbundið við klæðninguna. Þetta var fljótt að breiðast út og verkefni okkar númer eitt, tvö og þrjú var að hefta útbreiðslu eldsins undir klæðningunni,“ segir Finnur Hilmarsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. 

Þegar klukkan var að ganga þrjú var búið að slökkva logana og aðeins eftir að drepa í síðustu glæðunum. Álklæðningin sem logaði í er ónýt en skólinn sjálfur er laus við reyk og vatnsskemmdir. Aðspurður segist Finnur ekki geta svarað því hvort skólastarf verði með hefðbundum hætti í fyrramálið, það sé annarra að meta það.

Ekki liggur fyrir hvort um íkveikju er að ræða eður ei en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn þess.