Það sér nú fyrir endann á slökkvistarfi í íbúðarhúsnæðinu í Dalshrauni í Hafnarfirði þar sem eldur kviknaði á fjórða tímanum í dag. Allar stöðvar voru kallaðar út vegna eldsins sem var nokkuð mikill umfangs.

Verið er að slökkva í glæðum og reyklosa þessa stundina að sögn Hafsteins Halldórssonar, vakthafandi varðstjóra slökkviliðsins, sem Fréttablaðið ræddi við.

Enginn var í íbúðinni þegar eldurinn kviknaði að hans sögn en slökkviliðið þurfti þó að bjarga fjórum af svölum í annarri íbúð hússins. Enginn var fluttur á slysadeild en Rauði krossinn og Strætó voru á staðnum fyrir íbúana sem þurftu að yfirgefa húsið þegar kviknaði í.

Þá stendur yfir vinna við að hreinsa verslun og lager Húsasmiðjunnar sem liggur nærri íbúðinni þar sem eldurinn logaði en reykur og vatn fóru þangað yfir. Reynt er eftir fremstu getu að bjarga verðmætum og koma í veg fyrir frekara tjón.

Fréttin var uppfærð klukkan 17:55.