Eldur kom upp í yfirgefnu einbýlishúsi í Fossvogi á fjórða tímanum í nótt. Tilkynning barst slökkviliðinu klukkan 03:19 og var þá einn bíll sendur á vettvang. Þegar hann kom að húsinu var þó ljóst að kalla þurfti fleiri bíla til aðstoðar.

Að sögn varðstjóra gekk vel að slökkva eldinn en húsið er þó gjörónýtt. Slökkvilið þurfti að rífa allt þakið af húsinu til að slökkva eldinn og tóku eigendur þess í kjölfarið ákvörðun um að best væri að rífa það allt niður. Einn slökkviliðsbíll er nú enn á vettvangi til öryggis ef einhverjar glæður leynast eftir í húsinu við niðurrifið.

Húsið sem brann var bárujárnsklætt timburhús sem var orðið gamalt og niðurnítt. Það er staðsett á svokölluðum Fossvogsbletti fyrir neðan Landspítalann. Mikinn reyk lagði yfir svæðið í nótt, þar á meðal Landspítalann.

Enginn var í húsinu en að öllum líkindum kviknaði eldurinn við austurenda þess, utandyra. Ekkert er þó vitað um eldsupptök en lögregla mun rannsaka vettvang í dag.