Eldur kviknaði í nýbyggingu hjá Serum-stofnuninni í Pune á Indlandi í dag en stofnunin er stærsti framleiðandi bóluefnis í heiminum og framleiðir bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla við COVID-19.
Upptök eldsins voru í byggingu sem er í smíðum til að auka við framleiðslugetu á bóluefninu við COVID-19. Ekki er ljóst á þessu stigi hverjar orsakir hans eru eða umfang skemmda. Adar Poonawalla, forstjóri stofnunarinnar, segir í samtali við AP-fréttastofuna að engar skemmdir hafi orðið á framleiðslu bóluefnisins eða á þeim 50 milljón skömmtum sem eru geymdir í vöruhúsi stofnunarinnar. Enginn hafi slasast alvarlega eða látist af völdum eldsins.
Serum-stofnunin hefur skuldbundið sig til að framleiða milljarð skammta af bóluefni AstraZeneca og Oxford-háskóla. Í síðasta mánuði sagði Poonawalla við AP að vonast væri til að auka framleiðslugetuna í 2,5 milljarða skammta fyrir lok þessa árs. Byggingin sem eldurinn kviknaði í er lykilþáttur í aukinni getu stofnunarinnar til að framleiða bóluefnið.