Eldur kviknaði í ný­byggingu hjá Serum-stofnuninni í Pune á Ind­landi í dag en stofnunin er stærsti fram­leiðandi bólu­efnis í heiminum og fram­leiðir bólu­efni AstraZene­ca og Ox­ford-há­skóla við CO­VID-19.

Upp­tök eldsins voru í byggingu sem er í smíðum til að auka við fram­leiðslu­getu á bólu­efninu við CO­VID-19. Ekki er ljóst á þessu stigi hverjar or­sakir hans eru eða um­fang skemmda. Adar Poonawalla, for­stjóri stofnunarinnar, segir í sam­tali við AP-frétta­stofuna að engar skemmdir hafi orðið á fram­leiðslu bólu­efnisins eða á þeim 50 milljón skömmtum sem eru geymdir í vöru­húsi stofnunarinnar. Enginn hafi slasast al­var­lega eða látist af völdum eldsins.

Serum-stofnunin hefur skuld­bundið sig til að fram­leiða milljarð skammta af bólu­efni AstraZene­ca og Ox­ford-há­skóla. Í síðasta mánuði sagði Poonawalla við AP að vonast væri til að auka fram­leiðslu­getuna í 2,5 milljarða skammta fyrir lok þessa árs. Byggingin sem eldurinn kviknaði í er lykil­þáttur í aukinni getu stofnunarinnar til að fram­leiða bólu­efnið.