Eldur sem kom upp í frysti­húsinu í Hrís­ey klukkan fimm í morgun berst nú í nær­liggjandi hús. Eitur­efni og gös eru vistuð í húsinu svo mögu­lega þarf að rýma hluta eyjarinnar af öryggis­á­stæðum. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Slökkvi­starf gangi illa

Tuttugu slökkvi­liðs­menn hjá Slökkvi­liði Akur­eyrar og Hrís­eyjar berjast nú við eldinn og heyja mikla varnar­bar­áttu. Ólafur Stefáns­son, slökkvi­liðs­stjóri hjá Slökkvi­liði Akur­eyrar, segist ekki sjá fyrir endann á þessu.

Byrjað er að loga í nær­liggjandi húsi og mikill reykur í frysti­húsinu geri við­bragðs­aðilum erfitt fyrir. „Við erum í mikilli varnar­bar­áttu hérna og gengur ekkert sér­stak­lega vel,“ segir Ólafur Stefáns­son, slökkvi­liðs­stjóri hjá Slökkvi­liði Akur­eyrar, í sam­tali við RÚV.

Þyrlan á leið norður

Fleiri slökkvi­liðs­menn eru nú á leiðinni til Hrís­eyjar með Hrís­eyjar­ferjunni, fiski­bátum og björgunar­sveitar­bát frá Dal­vík. Þá er þyrla Land­helgis­gæslunnar einnig á leiðinni til að vera til taks.

Lög­reglan á Norður­landi eystra á­réttar við íbúa í Hrís­ey að loka öllum gluggum hjá sér og auka kyndingu. Vart hefur orðið við ammoníaks­leka frá vett­vangi og eru í­búar beðnir að halda sig innan­dyra,“ segir í til­kynningu sem lög­regla birti á Face­book.