Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um eld á Laugarvegi 176 á sjöunda tímanum í morgun. Kallað var til slökkviliðs og sendur bíll en þegar lögreglu bar að garði kom í ljós að um var að ræða gufu frá borholu.
Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu, segir að bíl slökkviliðsins hafi verið snúið við þegar ljóst var að engan eld var að finna. Ekki er ljóst hvort gufan hafi verið óvenju mikil í morgunsárið eður ei en Stefán segir ekki koma á óvart að gufa hafi myndast á svo köldum morgni.
Lögðu hald á hníf
Tilkynnt var um þjófnað í Austurbæ Reykjavíkur þar sem lögregla lagði hald á hníf. Málið var afgreitt á staðnum og var þjófunum sleppt að skýrslutöku lokinni. Önnur verkefni lögreglu í dag voru meðal annars þjófnaður í íbúðahverfi í Norðurmýrinni.
Þá var ökumaður stöðvaður í Kópavogi undir áhrifum fíkniefna. Við nánari athugun lögreglu kom í ljós að ökumaðurinn var ekki með réttindi og hafði fíkniefni í fórum sér.