Lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu barst til­kynning um eld á Laugar­vegi 176 á sjöunda tímanum í morgun. Kallað var til slökkvi­liðs og sendur bíll en þegar lög­reglu bar að garði kom í ljós að um var að ræða gufu frá bor­holu.

Stefán Kristins­son, varð­stjóri hjá slökkvi­liðinu, segir að bíl slökkvi­liðsins hafi verið snúið við þegar ljóst var að engan eld var að finna. Ekki er ljóst hvort gufan hafi verið ó­venju mikil í morguns­árið eður ei en Stefán segir ekki koma á ó­vart að gufa hafi myndast á svo köldum morgni.

Lögðu hald á hníf

Til­kynnt var um þjófnað í Austur­bæ Reykja­víkur þar sem lög­regla lagði hald á hníf. Málið var af­greitt á staðnum og var þjófunum sleppt að skýrslu­töku lokinni. Önnur verk­efni lög­reglu í dag voru meðal annars þjófnaður í í­búða­hverfi í Norður­mýrinni.

Þá var öku­maður stöðvaður í Kópa­vogi undir á­hrifum fíkni­efna. Við nánari at­hugun lög­reglu kom í ljós að öku­maðurinn var ekki með réttindi og hafði fíkni­efni í fórum sér.