Enn er eldsneytisskortur á Englandi, en breska ríkisstjórnin segir ástandið þó fara batnandi. Enn gætti eldsneytisskorts hjá 27 prósentum bensínstöðva í gær, en það er nokkuð minna en um helgina er um 60 prósent bensínstöðva vantaði eldsneyti. Helsta ástæða skortsins er sú að vörubílstjóra vantar til að ferja eldsneyti.

„Tölurnar eru að færast í rétta átt,“ sagði breski ráðherrann Simon Clarke í gær, en vildi ekkert segja um hvenær búast mætti við því að ástandið batnaði. Herinn væri í viðbragðsstöðu ef þörf krefði.

Eldsneyti sem ætlað var til iðnaðar hefur verið flutt til bensínstöðva til að reyna að mæta eftirspurn frá bifreiðaeigendum. Dæmi eru þess að bensínþyrstir ökumenn hafi veist að starfsfólki bensínstöðva, bæði með orðum og ofbeldi og mikið öngþveiti hefur skapast við margar þeirra. Brexit-leiðtoginn Nigel Farage varð til að mynda fyrir því óláni í gær að vörubíll ók á bifreið hans er hann fór milli bensínstöðva. Hann segist hafa farið á sjö slíkar, án árangurs.