Ólga í frönsku samfélagi hefur verið í brennidepli síðustu vikur og auga alþjóðasamfélagsins er nú á Emmanuel Macron, forseta Frakklands, sem hefur frá því ofbeldisfull fjöldamótmæli brutust út fyrir þremur vikum, verið milli steins og sleggju - mótmælenda og stefnu stjórnvalda.

Íslensk kona, búsett í París, hefur fylgst með mótmælunum á hliðarlínunni og segir marga finna fyrir innri togstreytu vegna málsins. 

Hundruð særðust um síðustu helgi

Fyrstu mótmælin voru þann 17. nóvember síðastliðinn, eða fyrir tæpum þremur vikum. Mótmælendur íklæddir gulum endurskinsvestum þustu út á götur víðs vegar um Frakkland til þess að mótmæla fyrirhugaðri hækkun díselskatts. Mótmælin gengu í fyrstu nokkuð friðsamlega fyrir sig, þó einn mótmælandi hafi látið lífið þessa fyrstu helgi þegar örvæntingafullur vegfarendi ók inn í hóp mótmælenda.

Á þessum þremur vikum frá því mótmælin hófust hafa þó ýmis hugðarefni bæst við áhyggjur mótmælenda sem eru nú afhuga hinum ýmsu efnahagsbreytingum sem forsetinn vill ráðast í. Ofbeldið hefur stigmagnast dag frá degi og má segja að óeirðirnar hafi náð hámarki, eða að minnsta kosti þegar hér er komið við sögu, í París um síðustu helgi.

Þá særðust 130 mótmælendur, kveikt var í tugum bíla og unnar skemmdir á Sigurboganum, svo lítið sé nefnt. Erlendir miðlar hafa fullyrt að ástandið hafi ekki verið svo slæmt í París til fjölda ára og virðist Macron vera milli steins og sleggju.

Forsetinn skipaði svo í kjölfar stigmagnandi reiði fransks almennings, Eduart Philippe forsætisráðherra að funda um málið með leiðtogum stjórnarandstöðunnar, en leiðtogarnir segja Macron einfaldlega ekki skilja reiði þjóðarinnar og bar fundurinn því ekki árangur. 

Tilkynnt var í vikunni um það að frönsk stjórnvöld hefðu vikið frá fyrirhuguðum eldsneytishækkunum en það virðist vera um seinan, reiði mótmælenda hefur kviknað og logar heitar en í mörg ár. 

Viðvera lögreglu og gul vesti víða

Guðbjörg Ríkey Thoroddsen Hauksdóttir, eða Ríkey líkt og hún er gjarnan kölluð, er skiptinemi í Parísarborg. Þar leggur hún nám í alþjóðasamskiptum, og er búsett í þrettánda hverfi Parísar.

Í samtali við Fréttablaðið segir Ríkey viðveru lögreglu í borginni hafa verið meira áberandi síðustu vikurnar og víða hafi mátt sjá mótmælendur í sínum einkennandi klæðnaði, gulum endurskinsmerkjum, sérstaklega um síðustu helgi. Þá var líka hið fræga neðanjarðarlesarkerfi Parísar, Metró-kerfið, lokað í kring um miðborg Parísar. 

Sjálf hefur Ríkey kosið að mæta ekki á mótmælin en hefur fylgst grannt með þróun mála frá hliðarlínunni. 

„Ég tók fyrst eftir mótmælendum fyrir svona tveimur vikum þegar ég fór skyndilega að sjá fólk í þessum vestum og með skilti,“ segir Ríkey. 

Hún segir mikla umræðu vera um stöðu mála í frönsku samfélagi og málið vera flestum samnemendum hennar afar hugleikið. 

Dropinn sem fyllti mælinn

„Eldsneytishækkunin var bara dropinn sem fyllti mælinn og fólki leið eins og loforð Macrons um að hugsa vel um láglaunafólk og millistéttina hafi verið svikin,“ segir Ríkey. „Macron þykir ekki vera í tengslum við almenning og er í rauninni ímynd elítunnar, vel menntaður og efnaður.“

Sjá einnig: Macron á milli steins og sleggju

Ríkey tekur sem dæmi ummæli sem Macron lét falla í haust, er hann benti atvinnulausum manni á að, ef hann hann einfaldlega skipti um starfsvettvang og gengi yfir götuna, gæti hann fundið sér vinnu. 

Ummælin minna óneitanlega á fleyg ummæli sem gjarnan eru bendluð við hina umdeildu Marie Antoinette, sem sagði að sveltandi almúginn gæti einfaldlega fengið sér kökur, ef ekki væri til brauð. 

Innri togstreyta Frakka

„Fólki líður eins og Macron átti sig ekki á ástæðunum bak við atvinnuleysi í Frakklandi og sé ekki að hlusta á almenning,“ segir Ríkey en bendir á að málið sé sérstaklega snúið. 

Margir glími við innri togstreytu vegna eldsneytisskattsins, sem er í rauninni grænn skattur, studdur af umhverfissinnum sem skilja einnig sjónarmið mótmælenda, að hækkunin sé fleygur í síðu hinna efnaminni.

Bendir Ríkey á í því samhengi að mótmælendur séu fjölbreyttur hópur og kröfurnar margar og ólíkar, sem er eitt af því sem gerir málið snúið Macron og frönsk stjórnvöld. „Þetta er stór hópur og fjölbreyttur sem er að mótmæla og það er ekkert eitt málefni sem fólk er að mótmæla heldur mörg.“

Mikill viðbúnaður hefur verið í París undanfarnar vikur og von er á auknum viðbúnaði á morgun, þegar vika er liðin frá því miðborg Parísar logaði. 

Gert er ráð fyrir því að mótmælendur gefi ekkert eftir á morgun og verður helstu kennimerki Parísarborgar lokað á morgun. 

89 þúsund lögreglumenn verða í viðbragðsstöðu víðs vegar um Frakkland á morgun og vígbúnir bílar tilbúnir víða um Parísarborg. Frönsk stjórnvöld hafa hvatt búðareigendur í miðborg Parísar til þess að hafa verslanir sínar lokaðar á morgun og hjólreiðareigendum að koma hjólum í öruggt skjól, til þess að þau verði ekki vopn í höndum óeirðarseggja.

Innanríkisráðherra Frakklands hefur sakað mótmælendur um að hafa skapað skrímsli, en einungis morgundagurinn getur þó leitt í ljós hvað koma skal.

Lítill hópur óeirðaseggja

Forsprakkar Gulu vestanna hafa sagt atvinnuóeirðarseggi á bakvið rustaháttinn og hann endursegli ekki anda mótmælanna. Aðspurð kveðst Ríkey sjálf telja mótmælin að mestu friðsamleg en ákveðin hópur mótmælenda eyðileggi fyrir hinum.

„Ég held að það sé bara lítill hópur sem er að rústa búðum, kaffihúsum, kasta steinum og valda eyðileggingu,“ segir Ríkey og bætir við: „Eða mér skilst það að minnsta kosti, ég hélt mig frá þessum mótmælum um síðustu helgi því maður veit að mótmæli í Frakklandi geta orðið frekar svakaleg.“ 

Þá segir Ríkey flesta samnemendur sína kjósa að gera slíkt hið sama, flestir átti sig á ástæðum mótmælenda en á sama tíma styðji upp að vissu marki hinn fyrirhugaða kolefnisskatt vegna umhverfisverndarsjónarmiða. 

Ásamt mótmælum Gulu vestanna eru fyrirhuguð önnur mótmæli, gegn loftslagsbreytingum og með umhverfisvernd. Sautján þúsund hafa boðað komu sína á mótmælin, ef marka má viðburðinn á Facebook, en að sögn Ríkeyjar hafa þau yfirleitt farið friðsamlega fram.