Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þremur mönnum í fjölbýlishúsi í Breiðholti síðdegis í gær. Töluverður viðbúnaður var á vettvangi vegna málsins en grunur var um að einn mannanna væri vopnaður. Svo reyndist þó ekki vera og var enginn handtekinn. Þetta kom fram í tilkynningu sem barst fjölmiðlum í gærkvöldi.

Ekki náðist í lögreglu eftir að tilkynning barst fjölmiðlum og Fréttablaðið hefur ekki getað sannreynt hvort aðgerðirnar tengist átökum í undirheimunum sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum undanfarna sólarhringa.

Samkvæmt heimildum blaðsins hefur eldri kynslóðin í undirheimunum hins vegar töluverðar áhyggjur af því stjórnleysi sem virðist ríkja meðal yngri kynslóðarinnar en myndbönd af átökunum hafa ýmist verið send fjölmiðlum eða birst á samfélagsmiðlum.

Myndband af grófri líkamsárás var birt á samfélagsmiðlum fyrr í vikunni og í kjölfarið sýndu fjölmiðlar myndbönd af íkveikjum bæði í Grafarholti og í Kópavogi. Þá var birt myndband af manni sem mundaði haglabyssu í átt að símtæki og hafði í hótunum við viðmælanda sinn hinum megin á línunni.

Einn var handtekinn í kjölfar líkamsárásarinnar og þá hefur lögregla staðfest að bruni í íbúð í Grafarholti sé til rannsóknar sem íkveikja.

Sem fyrr segir hefur Fréttablaðið ekki getað sannreynt að aðgerðir lögreglu í Breiðholti í gær tengdust fyrrnefndri morðhótun en líkt og fram kom í tilkynningu var enginn handtekinn á vettvangi.

Uppfært kl. 10.40 föstudaginn 20. nóvember:

Tveir karlar á þrítugsaldri voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í nótt og húsleitir framkvæmdar í tengslum við rannsókn lögreglu á bruna, líkamsárás og hótunum. Lögreglan naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra í aðgerðunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.