Yfir­völd í Frakk­landi hafa nú gefið það út að eldri ein­staklingar með undir­liggjandi sjúk­dóma geti verið bólu­settir með bólu­efni AstraZene­ca. Áður höfðu yfir­völd að­eins mælt með bólu­efninu fyrir ein­stak­linga undir 65 ára aldri, þar sem rann­sóknir voru ekki nógu skýrar um virkni bólu­efnisins á eldri ein­stak­linga.

Bóluefni AstraZeneca hefur verið verulega umdeilt síðastliðnar vikur en margir sérfræðingar sögðu ekki nægileg gögn vera til staðar um virkni bóluefnisins á eldri einstaklinga auk þess sem virknin var lítil sem engin þegar kemur að nýjum afbrigðum veirunnar. Þá hafa framleiðslutafir ekki bætt úr skák.

Hvött til að endurskoða stefnu sína

Heil­brigðis­ráð­herra Frakk­lands segir nú að bólu­efnið sé öruggt fyrir ein­stak­linga allt að 74 ára en önnur Evrópu­lönd, til að mynda Þýska­land, Austur­ríki og Ís­land, eru enn með tak­markanir. Í á­liti Lyfja­stofnunar Evrópu frá því í janúar er ekki kveðið á um slíkar tak­markanir en hvert land hefur heimild til að setja sínar eigin reglur.

Illa hefur gengið að koma bólu­efni AstraZene­ca út en í síðustu viku var greint frá því að fjórir af hverjum fimm skömmtum sem hafði verið dreift til með­lima­þjóða Evrópu­sam­bandsins væru enn ó­notaðir. Þannig var staðan til að mynda í Frakk­landi þar sem að­eins er búið að nota um 21 prósent af skömmtunum.

Eftir fund Leið­toga­ráðs ESB á föstu­daginn virtist Emmanuel Macron Frakk­lands­for­seta snúast hugur um bólu­efnið en heil­brigðis­yfir­völd víða um heim, til að mynda í Þýska­landi, hafa verið hvött til að endur­skoða stefnu sína um hverjir fái bólu­efni AstraZene­ca í ljósi ó­notaðra skammta. Heil­brigðis­yfir­völd í Frakk­landi segja nú bólu­efnið öruggt.