Þýsk yfir­völd hafa gefið út þau til­mæli að bólu­efni AstraZene­ca og Ox­ford há­skóla eigi ekki að fara til ein­stak­linga yfir 65 ára aldri. Í til­kynningu frá Robert Koch sótt­varna­stofnuninni um málið segir að það séu ekki næg gögn til staðar til að sýna fram á virkni bólu­setningarinnar hjá eldri aldurs­hópnum.

Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið virtist heil­brigðis­ráð­herra Þýska­lands, Jens Spahn, vera að í­huga for­gangs­röðunina vegna bólu­efnisins þannig að hægt væri að byrja á yngri ein­stak­lingum með undir­liggjandi sjúk­dóma eða fram­línu­starfs­mönnum.

Erfitt að segja til um virkni út frá rannsóknum

Grein um virkni bólu­efnisins var birt í við­skipta­blaðinu Hand­els­blatt fyrr í vikunni en þar var því slegið fram að virknin væri að­eins um 8 prósent hjá ein­stak­lingum yfir 65 ára aldri. Tals­maður Ox­ford há­skóla kom síðar fram og sagði að rann­sóknir hafi sýnt fram á svipaða virkni hjá öllum aldurs­hópum.

Aftur á móti voru ekki margir eldri þátt­tak­endur í fyrstu rann­sóknunum miðað við rann­sóknir annarra fram­leið­enda, eins og Pfizer/BioN­Tech og Moderna. Vegna þessa segja þýsk heil­brigðis­yfir­völd að það sé erfitt að full­yrða um virkni bólu­efnisins.

Mary Rams­ey, yfir­maður bólu­setningar hjá Lýð­heilsu­stofnun Eng­lands, PHE, segir í sam­tali við Reu­ters að bólu­efni AstraZene­ca sé jafn öruggt og bólu­efni Pfizer. Erfitt hafi verið að fylgjast með elsta hópnum í rann­sóknum en niður­stöður um ó­næmis­svör lofuðu góðu.

Lyfja­stofnun Evrópu á enn eftir að taka á­kvörðun um hvort bólu­efnið muni fá skilyrt markaðsleyfi en á­ætlað er að á­kvörðun stofnunarinnar liggi fyrir á morgun. Óljóst er hvort tilmæli verða gefin út um að bóluefnið eigi ekki að fara til eldri aldurs­hópa, hljóti það markaðsleyfi.

Óska eftir hjálp Breta

Stofnunin hefur þegar veitt tveimur bólu­efnum markaðs­leyfi en fram­leiðandi AstraZene­ca greindi frá því í síðustu viku að tafir yrðu á dreifingu skammtanna sem Evrópu­sam­bandið hafði samið um vegna fram­leiðslu­vanda. Alls var um 100 milljón skammta að ræða á fyrsta árs­fjórðungi.

Í kjöl­farið var á­kveðið að senda rann­sóknar­teymi á staðinn til þess að ganga úr skugga um að tafirnar væru í raun vegna fram­leiðslu­vanda. Gera má ráð fyrir að niður­stöður teymisins muni liggja fyrir eftir nokkra daga.

Bretar eru þegar byrjaðir að bólu­setja með bólu­efni AstraZene­ca en bólu­efnið fékk neyðar­heimild í desember. Heil­brigðis­ráð­herra Evrópu­sam­bandsins lagði til í gær að Bretar myndu senda skammta til Evrópu vegna tafanna. Bretar hafa lýst yfir vilja til að hjálpa en að­eins ef um auka­skammta er að ræða.