Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna og ræðumeistari segir að þótt að allir séu orðnir hundleiðir á sóttvarnayfirvöldum þá dugi það ekki að vera fúll og pirraður yfir ástandi. Það skili engu.

Staðan er sannarlega alvarlega í samfélaginu þegar Landspítalinn og almannavarnir hafa lýst yfir neyðarstigi. Síðustu vikur hafa Íslendingar set hvert metið á fætur öðru í fjölda smita. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í gær að næstu dagar verði erfiðir og Víðir ákvað að flytja eldræðu á fundi almannavarna í dag að minna Íslendinga á að öll él stytti upp um síðir.

„Það þekkja allir þessa rullu okkar. Allir orðnir hundleiðir á henni örugglega. Hundleiðir á okkur. En það eitt og sér dugar ekki. Það er ekkert nóg að vilja bara eitthvað annað. Það er ekki er nóg að benda á einhverja aðra hluti og það er ekki nóg að vera eitthvað fúll og pirraður yfir ástandinu. Það skilar okkur engu,“ byrjaði Víðir og breytti svo yfir í bjartsýnistón.

„Við saman höfum gert svo mikið. Við höfum gert allt sem hefur þurft og við vitum alveg hvað það er sem gagnast okkur.“

Víðir segir mikið kallað að takmarkanir stjórnvalda minnki en á sama tími séu kröfur um hertar aðgerðir.

„Við vitum alveg að þetta er ekkert auðvelt en við vitum líka að það er ljós framundan eins og sóttvarnalæknir kom vel inn á hérna áðan. Það gæti samt dimmt meira áður en það birtir en Íslendingar vita það alveg að öll él styttir upp um síðir. Næstu dagana er kannski bara ágætt að ferðast í huganum, sitja kyrr á sama stað en samt að fara um og ferðast. Farið vel með ykkur og vera góð hvert við annað.“

Sjáið ræðu Víðis hér fyrir neðan.