Framboð á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur hrunið á árinu og slegist er um íbúðir, bæði stórar sem smáar. Lóðaskortur og skortur á nýbyggingum veldur miklum vandamálum fyrir tvo hópa.

„Það vantar ekki aðeins minni íbúðir fyrir unga fólkið heldur einnig minni íbúðir fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig,“ segir Páll Heiðar Pálsson fasteignasali.

Um 30 prósent eru fyrstu kaupendur en 70 prósent að kaupa í annað skipti eða oftar. Stór hluti er fólk af eftirstríðsárakynslóðinni í leit að minna húsnæði.

Samkvæmt nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar seldust 37,8 prósent íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði. Er þetta hæsta hlutfall í sögunni. Aðeins á bilinu 600 til 700 eignir eru auglýstar, en voru yfir 2.000 fyrir tveimur árum síðan.

Páll segir æskilegt 2.500 til 3.000 eignir séu á markaði og þar af 700 til 800 nýbyggingar. Nýbyggingar hafi margföldunaráhrif á markaðinum því þá losni aðrar.

„Það koma mjög sjaldan undir 10 manns á opið hús ef eignir eru undir 60 milljónum,“ segir hann. Langflestar eignir af þessari stærð eru svo komnar með samþykkt kauptilboð á einni eða tveimur vikum

Staðan er ekki ósvipuð með stærra húsnæði en verðhækkunin stefnir í að vera 25 prósent á árinu þar, samanborið við 15 til 16 prósent í fjölbýli. Á sama tíma hafa laun aðeins hækkað um 9 prósent. Þróun uppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu er slík að fólk þarf yfirleitt að leita til nágrannasveitarfélaga, svo sem Akraness, Árborgar og Reykjanesbæjar, til að finna sérbýli.

Páll Heiðar Pálsson fasteignasali.

Spurður hversu hátt fólk sé að bjóða yfir segir Páll ekki óeðlilegt að það séu kannski á bilinu 3 til 5 prósent. Eign sem sett er á 50 milljónir fari á allt að 54 milljónum. Þá segir hann einnig að oft sé lítill munur á efstu boðunum, stundum ekki nema 500 þúsund krónur. Því muni oft litlu að fólk missi af eignum.

Til þess að setja skortinn betur í samhengi þá fletta um 25 til 30 þúsund manns fasteignavefjunum í hverri viku. Meira en 40 á hverja eign sem í boði er. Langflestir eru í alvörunni að leita sér að húsnæði.

Samkvæmt íbúðatalningu Samtaka iðnaðarins eru 3.400 íbúðir í byggingu, sem er 18 prósentum minna en í fyrra. Hámarki var náð í mars 2019, tæplega 5.000 íbúðir, en hefur dalað síðan. Uppbygging hefur verið hröðust í Garðabæ og Mosfellsbæ og íbúafjölgun á einu ári um 3 prósent. Í Garðabæ hafa 1.100 af 1.700 íbúðum í Urriðaholti verið byggðar en einnig er verið að byggja milli 200 og 300 íbúðir í Ásahverfi og á Álftanesi. Í Mosfellsbæ hefur Helgafellshverfi verið að byggjast upp ásamt 250 íbúða þéttingu í miðbænum.

Verst er staðan í Hafnarfirði þar sem íbúum fækkaði á árinu 2020 um 300 en fjöldinn hefur staðið í stað á árinu. Skarðshlíðarhverfið er að byggjast upp en þéttingarreitir hafa leitt til kærumála.

Staðan er svipuð í tveimur stærstu sveitarfélögunum, Reykjavík og Kópavogi, þar sem fjölgar um rúmt prósent. Í Kópavogi stendur til að rýma fyrir 1.000 íbúðum í Hamraborg og í Glaðheimahverfi rísa 300 íbúðir. Uppbygging í Reykjavík er mjög dreifð en einna mest í Bryggjuhverfinu, Norðlingaholti, Nauthólsvegi, Hlíðarenda og Efstaleiti.