Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir rannsóknir frá Evrópu og Bandaríkjunum sýna að fólk, áttatíu ára og eldra, sé sá hópur sem veikist hvað alvarlegast af Covid-19, smitist það eftir að hafa fengið þrjá skammta af bóluefni.

Það sé ástæða þess að eldra fólki verði boðið að þiggja fjórða skammt bóluefnis.

„Þessi fjórði skammtur verður í boði fyrir fólk 80 ára og eldra en einnig yngra fólk sem býr á hjúkrunarheimilum,“ segir Þórólfur.

Lyfjafyrirtækið Moderna hefur hafið rannsóknir á bóluefni sem sérstaklega á að veita vörn gegn omí­kron afbrigði kórónuveirunnar og stefnir að því að geta hafið dreifingu á því næsta haust. Þórólfur segir ekki ástæðu til þess að bíða með frekari bólusetningar vegna þessa.

„Þetta gæti tekið mun lengri tíma, það eru jafnvel vísbendingar um að hin bóluefnin veiti betri vernd gegn öðrum afbrigðum veirunnar,“ segir Þórólfur og bendir á að enn geti þróast ný afbrigði.

Á vefsíðunni covid.is segir að 112 einstaklingar hafi látist vegna Covid á Íslandi. Í omíkron-bylgjunni sem nú gengur yfir höfðu í gærmorgun 34 einstaklingar með Covid látist á Landspítalanum.

Þórólfur segir að ef fjöldi allra dauðsfalla á Íslandi sé skoðaður eftir mánuðum megi sjá að óvenju mörg andlát hafi átt sér stað í mars, sérstaklega hjá fólki 70 ára og eldra.

Í mars var útbreiðsla smita í samfélaginu mikil og fór fjöldi inniliggjandi sjúklinga með Covid á Landspítalanum hæst í 88 manns dagana 11. og 12. mars.

Þórólfur segir að ekki sé hægt að tengja dauðsföllin beint við Covid, tölurnar sýni þó einnig að dauðsföll hafi verið færri en venjulega í nokkra mánuði bæði á síðasta ári og árið 2020, þegar harðar samkomutakmarkanir voru í gildi hér á landi.