Myndbönd sem kajakræðarinn Veiga Grétarsdóttir tók af illa förnum eldislaxi sýna að fiskeldið hér á Íslandi glímir við sömu vandamál og erlendis. Stangveiðimaðurinn Bubbi Morthens harmar undanlátssemi eftirlitsstofnana við fyrirtækin, sem maki hér krókinn.

Eldislax í kvíum gengur í gegnum alls konar viðbjóð. Hann er uggaskemmdur, særður og sýktur. Í hann er dælt sýklalyfjum og hann þarf að synda hring eftir hring. Þetta hefur verið vitað lengi og þess vegna eru æ fleiri lönd að banna laxeldi í opnum kvíum og æ fleiri fyrirtæki að færa eldið upp á land,“ segir Bubbi Morthens, tónlistarmaður, stangveiðimaður og náttúruunnandi.

Fyrir skemmstu voru birt myndbönd á RÚV af illa förnum eldislaxi í sjókvíum á Vestfjörðum. Var hálfur haus þeirra farinn af og slæm sár á hliðum þeirra.

Bubbi og fleiri laxveiðimenn hafa lengi talað gegn sjókvíaeldi, sem og Verndarsjóður villtra laxastofna og Icelandic Wildlife Fund. Engu að síður hefur iðnaðurinn aðeins stækkað hér á Íslandi og það mjög hratt.

Það er ekki aðeins velferð eldislaxanna sjálfra sem er undir, að mati Bubba, heldur umhverfisins og annars lífríkis. „Mengunin sem fylgir laxeldinu er á við tugþúsunda manna byggð. Bæði dauðir og lifandi laxar skila af sér úrgangi og fóðrið sekkur niður á botn. Þetta er að eyða öllu lífríki langt út fyrir kvíarnar sjálfar,“ segir hann. „Í Noregi eru rækjumiðin í kringum stöðvarnar að hverfa og firðirnir að deyja.“

Geta hagað sér að vild

Ein hættan er að eldislax sleppi úr sjókvíunum og blandist villtum íslenskum löxum
í ánum. Samkvæmt Verndarsjóðnum eru villtir laxar aðeins um 50 til 80 þúsund, miðað við tæplega 16 milljónir eldislaxa, sem gætu farið upp í 45 milljónir.

Rannsóknir á Vestfjörðum sýna þegar erfðablöndun vegna slysasleppinga.

SAXoPicture-0A44A4C8-417763379.jpg

Sárin á eldislaxinum ná ekki að gróa og hann blindast loks og drepst.

Bubbi hefur ekki aðeins áhyggjur af erfðablönduninni heldur einnig þeirri lús sem eldislax ber með sér í árnar og smitar villta laxa af. „Þeir lifa það ekkert af. Kannski er ég af seinustu kynslóð manna sem veiða villtan lax,“ segir Bubbi.

Bubbi bendir á að eigendur eldisstöðvanna séu að stærstum hluta Norðmenn sem hafi komið hingað vegna þess að þrengt hafi verið að þeim í heimalandinu. „Hér sáu þeir tækifæri til þess að hala inn gígantískar peningaupphæðir og geta hagað sér að vild,“ segir hann.

Aðspurður segir Bubbi þá eftirlitsaðila sem til eru, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Fiskistofu, algerlega hafa brugðist hlutverki sínu. Sú undanlátssemi sem eldisfyrirtækjunum sé sýnd skýrist af pólitík. „Á landsbyggðinni eru vandamál og fólk þarf að hafa vinnu,“ segir hann.

Séð sveimara í hverri kví

„Ég var að róa fram hjá kví þegar ég sá dauðan skarf í neti. Þegar ég réri nær sá ég dauða fiska fljótandi á yfirborðinu,“ segir Veiga Grétarsdóttir kajakræðari, sem tók myndefnið upp. Í kjölfarið fór hún í fleiri kvíar í Arnarfirði og Dýrafirði til þess að skoða hvort þar væri sama sagan.

SAXoPicture-0A44A4C8-174461047.jpg

Veiga Grétarsdóttir kajakræðari skoðaði og myndaði margar opnar sjókvíar eftir að hún fann illa farna og dauða laxa.

Talsmenn eldisfyrirtækjanna, Arctic Fish og Arnarlax, hafa sagt þetta undantekningar og sá fyrrnefndi lýst efasemdum um að myndefnið sem Veiga tók upp komi úr þeirra kvíum.

„Ég hef séð þetta í hverri einustu kví sem ég hef komið að, þó ég hafi ekki myndað í öll skiptin,“ segir Veiga.

Þessir fiskar eru kallaðir sveimarar, þar sem þeir sveima á yfirborði kvíanna, blindir af sárum sem ná ekki að gróa. Sár sem myndast vegna nudds við netið og þrengsla í kvínni.

Byggðirnar verða háðar

Elvar Örn Friðriksson, framkvæmdastjóri Verndarsjóðsins, segir myndefni Veigu sýna að fiskeldið hér á landi sé að stefna í nákvæmlega sömu átt og það hefur gert víða erlendis. Með tilheyrandi áhrifum á villta stofna, svo sem lax, urriða og bleikju og mengun umhverfisins. „Þetta sýnir að ástandið hér er ekkert skárra en annars staðar,“ segir hann.

Samkvæmt Elvari er ein helsta hættan sú að ótraustum kvíum fjölgi og fjölgi. Sleppi mikið magn í einu gæti það orðið stórslys fyrir íslenska náttúru, sem hafi verið í þróun um þúsundir ára.

„Ég er mjög hræddur um að þetta aukist til til muna. Það er búið að gefa út heimildir fyrir töluvert mikla stækkun og eldisiðnaðurinn hefur gefið það sterklega í ljós að hann vill enn meira en búið er að heimila,“ segir Elvar. Heimildin nær upp á um 100 þúsund tonn en framleiðslan er um 40 í dag.

SAXoPicture-0A44A4C8-674097789.jpg

Elvar Örn Friðriksson framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxastofna.

Elvar harmar það hvað stjórnvöld hafa tekið lítið mark á þessari hættu þrátt fyrir háværar gagnrýnisraddir. Þegar fiskeldislöggjöfin fór í gegnum Alþingi fyrir tveimur árum síðan beitti Verndarsjóðurinn sér fyrir því að fá vitnisburði óháðra erlenda vísindamanna. „Því miður var lítið sem ekkert tekið mark á því og nánast ekkert rataði inn í löggjöfina,“ segir Elvar.

Elvar beinir spjótum sínum að Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfisráðherra, Vinstri grænum og öðrum stjórnmálamönnum sem telja sig bera hagsmuni náttúrunnar fyrir brjósti.

„Þeir flokkar sem eiga að standa fyrir umhverfið eru ekki að beita sér í þessum málum,“ segir Elvar. „Þetta verður líka sífellt erfiðara því byggðir fyrir vestan og austan eru byrjaðar að treysta á þennan iðnað.“

Vilja eldið upp á land

Bubbi, Veiga og Elvar eru öll sammála um að það að færa eldið upp á land sé eina leiðin. En fiskeldisstöðvar hafa borið fyrir sig að því fylgi aukinn kostnaður.

„Ég styð landeldi heilshugar,“ segir Bubbi. „Það er dýrara, en að sama skapi færðu betri afurð og fólk getur haft betri samvisku að kaupa hana. Ég hvet alla til að fara með laxeldið upp á land.“

Elvar bendir á að sjókvíaeldi sé ódýrasta aðferðin til að framleiða lax en munurinn sé langt því frá óyfirstíganlegur.

„Munurinn í startkostnaðinum er töluverður en þegar þetta er komið á legg er kostnaðurinn svipaður. Þess vegna eiga stjórnvöld að skapa hvata fyrir landeldi,“ segir hann, um hvernig hægt sé að bregðast við.

„Að færa eldið upp á land myndi valda því að það væri engin laxalús, engar slysasleppingar og erfðablöndun við villta íslenska stofna. Það væri líka hægt að stjórna öllum úrganginum frá eldinu og endurvinna hann í bíódísel eða áburð.“