Tekin hefur verið ákvörðun um að bóluefni lyfjaframleiðandans AstraZeneca við COVID-19 verði aðeins notað hjá fólki yngra en 65 ára hérlendis.

Ákvörðunin byggir á þeim rannsóknum sem liggja að baki á efninu en fólk eldra en 65 ára tók ekki þátt í rannsókn á bóluefninu.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu að þrátt fyrir að eldri aldurshóparnir verði ekki bólusettir með bóluefni AstraZeneca muni bólusetningar ekki tefjast hér á landi.

Þessi ákvörðun er sú sama og hefur verið tekin í nágrannalöndunum, þar á meðal Svíþjóð, Noregi og Danmörku, sem og í Belgíu, Póllandi, Frakklandi og Þýskalandi.

Bóluefni AstraZeneca fékk markaðsleyfi hjá Lyfjastofnun Íslands fyrir tæpri viku eftir að hafa fengið grænt ljós frá lyfjastofnun Evrópu.

Samkvæmt nýrri dreifingaráætlun frá AstraZeneca fær Ísland um 14 þúsund skammta af bóluefni þeirra í febrúar, skammtarnir munu berast vikulega. Þrír mánuðir verða látnir líða á milli fyrri og seinni skammts AstraZeneca. Samkvæmt Þórólfi nær efnið hámarksvirkni með því móti, eða 90 prósent.

Þá segir hann að samanlagt muni Ísland fá að minnsta kosti 74 þúsund skammta af bóluefni fyrir mánaðamótin mars/apríl.

Þórólfur tekur fram að einstaklingar geti ekki valið hvaða bóluefni þeir verði bólusettir með. „Þessi efni eru öll með svipaða virkni og það væri ekki við hæfi að fólk færi að velja hvaða bóluefni það verði bólusett með," segir Þórólfur.

Bóluefni AstraZeneca verði jafnframt notað á alla einstaklinga yngri en 65 ára, þar á meðal einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma.

Yfir­­völd í Sviss hafa neitað að sam­þykkja bólu­efni Ox­­for­d­-há­­skóla og AstaZene­­ca við CO­VID-19 á þeim grundvelli að ekki liggi nægar upp­­­lýsingar um virkni þess. Þetta er fyrsta ríkið á megin­­landi Evrópu sem hafnað hefur að veita bólu­efninu markaðs­­leyfi.