Í kvöld fara fram almennar stjórnmálaumræður, svokallaðar eldhúsdagsumræður, á Alþingi en um er að ræða síðustu eldhúsdagsumræður kjörtímabilsins.
Umræðurnar hefjast kl. 19:30, skiptast í þrjár umferðir og hefur hver þingflokkur átta mínútur í fyrstu umferð, fimm mínútur í annarri og fimm mínútur í síðustu umferð.
Röð flokkanna verður þessi í öllum umferðum: Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Vinstrihreyfingin – grænt framboð, Píratar, Framsóknarflokkur, Viðreisn og Flokkur fólksins. Fyrstur til að taka til máls verður því Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og Inga Sæland verður síðust.
Tólf konur taka til máls í þrettán ræðum, því Inga Sæland verður tvisvar og ellefu karlmenn tala einu sinni.
Hægt verður að fylgjast með umræðunum í beinni hér að neðan auk þess sem Fréttablaðið mun flytja fréttir af þeim vefnum í allt kvöld.

Ræðumenn flokkanna verða eftirtaldir:
Fyrir Miðflokkinn tala Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Þorsteinn Sæmundsson.
Ræðumenn Sjálfstæðisflokksins eru Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, og Vilhjálmur Árnason.
Fyrir Samfylkinguna tala Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.
Fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð tala Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.
Ræðumenn Pírata eru í fyrstu umferð Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen og Andrés Ingi Jónsson.
Ræðumenn Framsóknarflokksins eru Willum Þór Þórsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.
Fyrir Viðreisn tala Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Jón Steindór Valdimarsson, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.
Fyrir Flokk fólksins tala Inga Sæland, 8. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, í fyrstu og þriðju umferð en Guðmundur Ingi Kristinsson í annarri umferð.