Eldgosið í Meradölum lifir enn að sögn Eldfjalla- og náttúruvárhóps Suðurlands, en í færslu frá hópnum segir að verulega hafi dregið úr afli þess.

„Nú í kvöld má sjá bráð skvettast í litlu opi innan megingígsins og mikil afgösun á sér stað. Enn fremur er lítil hrauná að leka á yfirborði til suðausturs inn í Meradali. Hraunáin hefur enga beina tengingu við gíginn, heldur vellur mikið afgösuð hraunbráð þar upp á yfirborð út úr lokuðum farvegi (hraunhelli) nokkuð austan við gíginn.“ segir í tilkynningu um málið.

Eldfjalla- og náttúruvárhópurinn segist hafa fengið þessar upplýsingar staðfestar með myndefni úr drónum sem hafa flogið yfir svæðið seinnipartinn í dag.

Mikið hefur verið fjallað um það í dag hvort eldgosið í Meradölum sé komið á endastöð. Til að mynda hóf Eldfjallafræði og náttúruvárhópur Háskóla Íslands skrif sín um málið á spurningunni „Goslok?“

„Undanfarna þrjá daga hefur dregið jafnt og þétt úr virkninni í Meradalagígum og óróanum sem hún hefur framleitt, þannig að á þessum tímapunkti er engin kvikustrókavirkni sjáanleg í gígunum, óróinn nánast fallinn niður, en þó streymir gas í stríðum straum upp úr gígnum.“ sagði í tilkynningu hópsins í dag, en þar sagði jafnframt að hegðunin gæfi til kynna að goslok væru væntanleg og að líklega yrði það staðfest síðar í dag.