Í dag, 19. septem­ber, urðu þau tíma­mót að hálft ár er liðið frá upp­hafi eld­gossins í Fagra­dals­fjalli í Geldinga­dölum. Gosið er nú það lang­lífasta á 21. öldinni og hefur staðið sam­fleytt yfir í 184 daga og slegið fyrra met eld­gossins í Holu­hrauni sem stóð yfir í 181 dag.

Gosið hófst þann 19. mars eftir mikla skjálfta­hrinu sem hafði staðið linnu­laust yfir í tæpt eitt og hálft ár frá janúar 2020.

Ekkert lát varð á skjálftunum fyrr en í mars á þessu ári þegar spennunni létti loks og gosið hófst. Mun betur fór en á horfðist því gosið reyndist lítið og hafa nú tæp­lega þrjú hundruð þúsund ferðir verið farnar að gos­stöðvunum.

Veður­stofa Ís­lands birti ítar­lega yfir­ferð á fyrstu sex mánuðum eld­gossins á vef sínum í dag. Þar kemur meðal annars fram að hraun­flæðið sé metið til­tölu­lega lítið á mæli­kvarða eld­gosa sem orðið hafa á Ís­landi.

„En vegna stað­setningar, ná­lægðar við byggð og að­gengi al­mennings og vísinda­manna að gos­stöðvunum, má segja að á­hrif gossins og þær á­skoranir sem því hafa fylgt, hafi orðið meiri en með önnur ný­leg gos,“ er meðal þess sem segir í grein Veðurstofunnar.

Mjög stressandi tíma­bil

Michelle Maree Parks, vísinda­maður í af­lögunar­teymi Veður­stofunnar, segir tíma­bilið áður en eld­gosið hófst hafa verið mjög stressandi og skapað álag á teymið.

„Ó­róinn hófst í desember 2019 þannig að þarna í mars 2021 höfðum við þegar verið búin að vinna hörðum höndum í 14 mánuði við vöktun svæðisins. Við vorum stöðugt að upp­færa af­lögunar kort frá gervi­hnöttum og að keyra líkön til að reyna að finna út hvað af­lögunin var að segja okkur“, segir hún.

Þrír kviku­gangar voru undir Svarts­engi og annar fyrir neðan Krýsu­vík árið 2020. Síðan hóf einn gangur að færa sig í átt að Fagra­dals­fjalli í enda febrúar 2021.

„Það var mjög mikil­vægt að geta stað­sett hann, hversu djúpt hann var og hversu mikið magn af kviku væri í honum. Þetta þýddi að við þurftum oft að vaka lengi vikurnar fyrir gosið til að út­búa ný líkön. Það sem við lærðum af þessu er að þó að aukning í skjálfta­virkni og af­lögun gæti verið fyrir­vari eld­goss þá er það ekki alltaf raunin. Það veltur á því hversu mikil spenna hefur nú þegar verið leist úr læðingi og á styrk­leika skorpunnar“, segir Michelle.

Síðustu dagana fyrir eld­gosið var skjálfta­virknin með minna móti og höfðu engir skjálftar mælst yfir 4 að stærð, en það hafði ekki gerst frá því að skjálfta­hrinan hófst. Það má segja að það hafi verið lognið á undan storminum. Þann 19. mars kl 20:45 opnaðist sprunga við Fagra­dals­fjall sem bauð upp á stór­feng­lega sjón í kvöld­birtunni. Eld­gos var hafið.

Fréttablaðið/Valli

Fylgst náið með gosinu

Mjög náið hefur verið fylgst með eld­gosinu frá því að það hófst og hefur það verið bæði vísinda­mönnum og við­bragðs­aðilum mikil á­skorun hversu sí­breyti­legt það er. Að sögn Veður­stofunnar er stað­setning gossins einkar hentug þar sem að­gengi er auð­velt og því nokkuð auð­velt að koma fyrir mæli­búnaði til vöktunar. Ýmsum búnaði á borð við mynda­vélar, gas­mæla og hita­mæla var snemma komið fyrir við gosið jafnt sem búnaði til að safna úr­komu og gjósku til að meta mengun.

Þá hefur einn af hvim­leiðustu fylgi­fiskum þess verið gasmengun sem hefur breyst mikið á milli tíma­bila og hefur magn þess sveiflast í takti við breytta hegðun gossins. Magn hrauns gerði það einnig með breyttri virkni.

Ný­legar flug­mælingar á vegum jarð­vísinda­stofnunar Há­skóla Ís­lands sýna að hraun­breiðan er orðin 4,6 fer­kíló­metrar, sem er að­eins einn tíundi af flatar­máli Holu­hrauns. Heildar losun gass við Fagra­dals­fjall er einnig að­eins einn tíundi af því sem að kom úr Holu­hrauni en talið er að um 9.6 milljónir tonna af gasi hafi komið upp á yfir­borðið í því gosi.

Melissa Anne Pf­ef­fer sér­fræðingur á sviði ösku- og efna­dreifingar segir að í byrjun eld­gossins hafi verið mjög auð­velt að mæla efna­sam­setningu og magn gas­flæðis frá eld­gosinu.

„Þegar leið á gosið og gígurinn fór að hækka og hraun­breiðan tók að stækka þá hefur það verið miklu erfiðara. Teymið okkar hefur stöðugt verið að finna nýjar leiðir og nota nýja tækni til þess að ná að mæla efna­sam­setningu og dægur­sveiflu gass við eld­stöðvarnar“, segir hún.

Fréttablaðið/Ernir

Jafn heillandi og það er hættulegt

Að sögn Veður­stofunnar hefur eld­gosið verið sí­breyti­legt á þeim sex mánuðum sem það hefur staðið yfir.

„Það hefur fært vísinda­mönnum ein­stakt tæki­færi til að auka við þekkingu sína en jafn­framt gefið al­menningi kost á því að komast í tæri við náttúru­öflin. Það má kannski segja að eld­gos eru jafn heillandi og þau geta verið hættu­leg.“

Þegar ný gos­op byrjuðu að opnast við gosið reyndu vísinda­menn að rýna í gögn til reyna að spá fyrir um hvar og hve­nær ný gos­op gætu myndast. Fljót­lega tókst að greina fyrir­boða nýrrar opnunar með því að rýna í ó­róa­gröf. Þar með varð sólar­hrings­vakt Veður­stofunnar gert kleift að senda út við­vörun til við­bragðs­aðila á svæðinu sem gátu brugðist við í tæka tíð.

Þetta reyndist sér­stak­lega mikil­vægt í ljósi þess hversu mikið að­dráttar­afl eld­gosið hefur haft alveg frá upp­hafi. Nærri 6000 ferða­menn komu fyrstu vikurnar og fjöldinn jókst gífur­lega í sumar þegar er­lendir ferða­menn byrjuðu að streyma aftur til Ís­lands.

Fréttablaðið/Ernir

Náttúran fer sínu fram

„Það hefur verið mikil á­skorun að vakta svæðið til að reyna að tryggja öryggi fólks, þar sem eld­gosið er stöðugt að breytast og hætturnar sam­fara því“, segir Sara Bar­sotti, fag­stjóri eld­fjalla­vár Veður­stofunnar.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, tók í sama streng þegar Fréttablaðið ræddi við hann fyrir helgi.

Hann segir það lán í óláni að gosið hafi hafist í miðjum heimsfaraldri því annars hefði fjöldinn verið umtalsvert meiri og viðurkennir að það sé heppni að ekki hafi enn orðið stórslys.

„Fólk er að fara þangað í öllum veðrum og í alls konar klæðnaði. Við höfum líka séð mikla áhættuhegðun, svo sem að fólk er að klöngrast upp á hraunið og í gígnum,“ segir hann. „Fólk hefur gleymt sér í dýrðinni þarna og hagað sér eins og það sé á karnivali. Virðingin fyrir náttúrunni hefur ekki alltaf verið næg,“ segir Rögnvaldur.

Alls ó­víst er hversu lengi gosið mun standa yfir í heildina og hver á­hrif þess verða að lokum. En að sögn starfs­manna Veður­stofunnar sem fylgjast grannt með þróun mála er það eina sem vitað er með vissu að náttúran fer sínu fram.

Fréttablaðið/Ernir