„Það er ekkert sem bendir til þess að eldgos sé að koma í augnablikinu. Ég myndi nú halda miðað við fyrri reynslu að við séum að tala um einhverja mánuði áður en það kemur gos,“ segir Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, um jarðhræringarnar á Reykjanesskaga undanfarnar vikur.
Um 400 jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu síðan á sunnudag. Þorvaldur segir skjálftavirknina svipa til þeirrar sem var undanfari eldgossins í Fagradalsfjalli. „Þetta er svipað mynstur og hugsanlegt að við séum að sjá sömu hlutina gerast.“
„Það eru náttúrulega mestu líkurnar á að það verði gos í grennd við þar sem skjálftavirknin hefur verið hvað mest, á stöðum líkt og Eldvörpunum, sem eru rétt vestan við Grindavík og í Þorbirni, þar sem landið hefur verið að rísa. Svo er einnig búin að vera skjálftavirkni rétt við Sveifluhálsinn og við Kleifarvatn,“ segir Þorvaldur, en hann telur að það muni ekki gjósa á öllum þessum stöðum í einu. „Ég myndi halda að það muni hugsanlega verða eitt meðaleldgos, jafnvel lítið gos á einum stað.“
Þorvaldur segir að gos kæmi ekki fyrirvaralaust. „Við myndum vita af því. Mestar líkur eru á svipuðum atburðum og rétt fyrir gosið í Geldingadölum. Ef kemur til goss á einhverjum þessara staða myndi skjálftavirknin stóraukast og afmarkast við staðinn þar sem kvikan er að brjóta sér leið til yfirborðs.“
Hann segir að gos leiði af sér bæði jákvæð og neikvæð áhrif. „Skaginn getur búið til stór gos líka og áhrifin af svona gosum eru bæði jákvæð og neikvæð. Jákvæð út af túrismanum og að fólk geti horft á gosið og haft gaman af. Neikvæðu áhrifin eru að gosið er tiltölulega nálægt mikilvægum innviðum. Hvort sem það eru vegir eða hitaveitulagnir, þá gæti gos eyðilagt þessa innviði. Við þurfum að vera viðbúin að taka á þessu, það er ekki gott að bíða eftir gosi og sjá hvað gerist. Við þurfum að hugsa fram í tímann.“
Þorvaldur segir að við ættum að undirbúa okkur undir að eiga við eldgos á Reykjanesskaganum ótt og títt næstu áratugi. „Þetta gæti orðið stór þáttur í lífi okkar,“ segir hann og telur að síðasta gos hafi verið viðvörun. „Eldgosið í Fagradalsfjalli var mjög kurteis viðvörun, því við vitum að það geta verið öflugri gos á Reykjanesskaga.“