„Margar ferðaskrifstofur sem við erum í samstarfi við erlendis voru að leita leiða til að halda viðskiptavinum spenntum fyrir þeim ferðum sem þurfti að setja á ís og upp úr því spratt þessi hugmynd,“ segir Dagný Björg Stefánsdóttir, forstjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Hidden Ice­land.

Ferðaþjónustufyrirtækið mun bjóða upp á sýndarmenntunarnámskeiðum eldgosið á Reykjanesi. Um er að ræða fyrirlestur á netinu svo fólk um heim allan geti fræðst um eldgosið. Stuðst verður við myndir og myndbönd af eldgosinu og að fyrirlestrinum loknum býðst þátttakendum að spyrja spurninga.

Meginástæðu fyrirlestrarins segir Dagný vera þá að kveikja neistann hjá tilvonandi ferðalöngum fyrir ferðalögum til Íslands þegar aðstæður leyfa. „Þó svo að ferðalög til útlanda séu ekki í boði fyrir alla þá þýðir það ekki að það sé ekki hægt að byrja að skipuleggja og hafa eitthvað til að hlakka til,“ segir hún.

Dagný segir að eftir að eldgosið hófst á Reykjanesi þann 19. mars síðastliðinn hafi hún fundið fyrir miklum áhuga að utan.„Til dæmis hafa þeir sem eru með ferðir bókaðar með okkur í vor haft samband til að athuga hvort hægt sé að bæta göngu að gossvæðinu í ferðina þeirra,“ segir hún.

Nýja hraunið í Meradölum.
Fréttablaðið/Stefán

„Við bjóðum upp á dagsferð um Reykjanes og áhuginn á þeirri ferð hefur einnig aukist í kjölfar gossins,“ bætir Dagný við.Frá því að kórónaveirufaraldurinn hófst hér á landi hefur ferðaþjónusta að mestu leyti legið niðri og segir Dagný að þegar faraldurinn stóð sem hæst hafi starfsemi fyrirtækisins í rauninni legið í dvala.

Hún segir mörg tækifæri felast í eldgosinu og þá hafi breyttar reglur á landamærunum einnig breytt miklu, en þær tóku gildi í fyrradag og heimila farþegum utan Scheng­en að ferðast til Íslands án þess að fara í sóttkví, hafi þeir vottorð um bólusetningu eða staðfestingu um COVID-19 sýkingu.

„Þessar fregnir voru kærkomnar fréttir fyrir okkar starfsemi þar sem okkar stærsti viðskiptavinur kemur frá Bandaríkjunum. Þessi breytta reglugerð veitir okkur meiri fyrirsjáanleika út árið og viðskiptavinir geta bókað með meira öryggi ef þeir hafa verið bólusettir,“ segir Dagný.

Hvað gosið varðar felast í því tækifæri til að koma Íslandi í sviðsljósið að nýju að sögn Dagnýjar.„Við vonum að gosið í Geldingadölum hafi svipuð áhrif þegar við komum út úr heimsfaraldrinum og gosið í Eyjafjallajökli árið 2010,“ segir Dagný.

Mikilvægt sé fyrir ferðaþjónustuna að finna nýjar leiðir til að kynna Ísland, sýndarveruleikanámskeiðið sé þáttur í því.„Þessi tækni hefur verið mjög mikilvægt tól fyrir okkur þegar ferðalög hafa ekki verið möguleg fyrir marga,“ segir Dagný.