Þor­valdur Þórðar­son, eld­fjalla­fræðingur við Há­skóla Ís­lands, telur að eld­gosið á Reykja­nes­skaga sé við það að klárast. Eld­gosið hófst 19. mars síðast­liðinn en undan­farnar vikur hefur verið ró­legt á svæðinu.

„Mér sýnist margt benda til þess að eld­gosið sé alveg á loka­metrum. Enn mælist þó minni­háttar út­streymi gass úr gígnum og hrauninu, sem segir okkur að enn leynist þarna líf, þótt lítið sé,“ segir Þor­valdur í for­síðu­frétt Morgun­blaðsins í dag.

Þó að undan­farnar vikur hafi verið ró­legt á svæðinu verður gosinu ekki af­lýst fyrr en eftir að minnsta kosti þriggja mánaða stopp. Nú eru liðnar fimm vikur síðan síðast rann hraun úr gígnum.