Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, segir stöðuna á Reykjanesi nú svipaða og fyrir óróapúlsinn sem myndaðist á miðvikudag hvað varðar líkur á eldgosi. Mælingar sýni að breytingarnar hafi ekki verið mjög miklar heldur hafi kvika verið að troða sér stutt til suðvesturs.

Þrjár sviðsmyndir séu uppi hvað varðar næstu daga, að óróinn fjari út, að kvikugangurinn haldi áfram að stækka eða það verði eldgos. „Það er ekki mikill þrýstingur þarna,“ segir Magnús. Þó sé útlit fyrir að óróanum sé ekki að ljúka því jarðskjálftavirknin sé enn mjög mikil.

Magnús segir að eldgos muni ekki hefjast fyrirvaralaust og þegar séu fyrstu vísbendingarnar komnar fram. „Ef kvikan fer að brjóta sér leið upp myndi það sýna sig í lág­tíðnióróa, svipað og gerðist á miðvikudag,“ segir Magnús.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði.

Aðspurður hvort svæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis sé það eina þar sem gos getur komið upp segir Magnús svo vera meðan virknin sé bundin við það svæði. Þeir jarðskjálftar sem eigi upptök lengra frá séu afleiðing af þessari virkni, og þar sé ekki kvika undir sem geti náð til yfirborðs. „Það er ekki sennilegt að þessi virkni hleypi af stað gosi annars staðar,“ segir Magnús.

Enn þá er yfirvofandi stór skjálfti í Brennisteinsfjöllum, upp á 6 eða 6,5 að stærð. „Það eru engin merki núna á því svæði um skjálfta en tíminn er kominn og allir ættu að vera undirbúnir undir það,“ segir Magnús.

Fannar Jónsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir bæjarbúum létt yfir að dregið hafi úr líkum á eldgosi. Skjálftavirknin hafi hins vegar færst nær bænum og fylgist bæjarbúar vel með virkninni og ráðum almannavarna.

Fannar segir þetta viðvarandi ástand hafa töluverð áhrif á bæjarbúa. „Ég veit að fólk hefur verið að fara í sumarbústaði um helgar eða jafnvel leigja sér hótelherbergi til að breyta um umhverfi og komast aðeins frá þessu,“ segir hann.

Ólíkt faraldrinum hafa jarðhræringarnar ekki haft áhrif á atvinnulíf Grindavíkur að sögn Fannars, né heldur starfsemi bæjarfélagsins sjálfs. Allir viðbragðsaðilar, svo sem lögregla og björgunarsveit, séu þó á tánum ef á þarf að halda.