Ásta Rut Hjartar­dóttir, jarð­eðlis­fræðingur, segir að í sam­bæri­legum jarð­hræringum í Kröflu árin 1974 til 1986 hafi eld­gos orðið níu sinnum af þeim tuttugu skiptum sem kviku­inn­skot urðu líkt og talið er að hafi sést merki um á milli Fagra­dals­fjalls og Keilis.

Eins og fram hefur komið hafa nýjar inSAr gervi­tungla­myndir bent til þess að um kviku­inn­skot sé að ræða nærri Fagra­dals­fjalli. Vísinda­ráð al­manna­varna hyggst funda að nýju á morgun vegna stöðunnar en von er á gögnum sem varpað geta frekari ljósi á stöðuna.

„Stundum hengur þetta bara niðri og fer ekkert upp,“ sagði Ásta í sam­tali við Frétta­blaðið. Verði þó gos, sem hún tekur fram að þurfi alls ekki að vera, yrði um­­rætt svæði á­­gætt undir slíkt, sé tekið mið af fjar­lægð við manna­byggð.

Árin 1975 til 1984 hafi orðið um tuttugu slík ganga­inn­skot í Kröflu. „Í níu af þeim urðu eld­­gos, í ellefu urðu ekki eld­­gos, bara svona til að benda á að svona getur farið á hvorn veginn sem er.“

Hún segir að bíða verði fleiri gervi­­­tungla­­mynda til að fá nánari upp­­­lýsingar um það sem sé að eiga sér stað á Reykja­nesi. „En kviku­­gangur er talinn lík­­legasta skýringin miðað við þessar myndir.“

Gasið vanda­mál en ekki hraunið

Kristín Jóns­dóttir, hóp­stjóri vöktunar og náttúru­vár hjá Veður­stofu Ís­lands, segir í sam­tali við mbl.is að vel sé nú fylgst með svæðinu á milli fjallanna tveggja.

Hún segir jafn­framt að miðað við svæðið sem um ræðir sé hraun­flæði ekki talin raun­veru­leg ógn við manna­byggð. Yfir­völd hafi hins­vegar frekari á­hyggjur af gasmengun færi svo að gysi.

Hún tekur í svipaðan streng og Ásta, að það sé í raun enn ekki fullvíst að um kvikuinnskot sé að ræða. Áður hefur komið fram í upp­lýsingum frá Vísinda­ráði al­manna­varna að fundað verði að nýju á morgun. Þá verði farið yfir frekari gögn og fleiri gervi­tungla­myndir af svæðinu.