Ásta Rut Hjartardóttir, jarðeðlisfræðingur, segir að í sambærilegum jarðhræringum í Kröflu árin 1974 til 1986 hafi eldgos orðið níu sinnum af þeim tuttugu skiptum sem kvikuinnskot urðu líkt og talið er að hafi sést merki um á milli Fagradalsfjalls og Keilis.
Eins og fram hefur komið hafa nýjar inSAr gervitunglamyndir bent til þess að um kvikuinnskot sé að ræða nærri Fagradalsfjalli. Vísindaráð almannavarna hyggst funda að nýju á morgun vegna stöðunnar en von er á gögnum sem varpað geta frekari ljósi á stöðuna.
„Stundum hengur þetta bara niðri og fer ekkert upp,“ sagði Ásta í samtali við Fréttablaðið. Verði þó gos, sem hún tekur fram að þurfi alls ekki að vera, yrði umrætt svæði ágætt undir slíkt, sé tekið mið af fjarlægð við mannabyggð.
Árin 1975 til 1984 hafi orðið um tuttugu slík gangainnskot í Kröflu. „Í níu af þeim urðu eldgos, í ellefu urðu ekki eldgos, bara svona til að benda á að svona getur farið á hvorn veginn sem er.“
Hún segir að bíða verði fleiri gervitunglamynda til að fá nánari upplýsingar um það sem sé að eiga sér stað á Reykjanesi. „En kvikugangur er talinn líklegasta skýringin miðað við þessar myndir.“
Gasið vandamál en ekki hraunið
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri vöktunar og náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að vel sé nú fylgst með svæðinu á milli fjallanna tveggja.
Hún segir jafnframt að miðað við svæðið sem um ræðir sé hraunflæði ekki talin raunveruleg ógn við mannabyggð. Yfirvöld hafi hinsvegar frekari áhyggjur af gasmengun færi svo að gysi.
Hún tekur í svipaðan streng og Ásta, að það sé í raun enn ekki fullvíst að um kvikuinnskot sé að ræða. Áður hefur komið fram í upplýsingum frá Vísindaráði almannavarna að fundað verði að nýju á morgun. Þá verði farið yfir frekari gögn og fleiri gervitunglamyndir af svæðinu.