Eldgos er hafið í Fagradalsfjalli. Kristín Jónsdóttir, sérfræðingur hjá Veðurstofunni staðfestir það í samtali við Fréttablaðið. Samkvæmt tilkynningu Veðurstofunnar er fluglitakóði rauður en mjög lítill órói sést á jarðskjálftamælum. Flug gæslunnar fer í loftið innan skamms. Á vef Veðurstofunnar segir að fyrsta tilkynning hafi borist þeim klukkan 21.40. Gos var staðfest í gegnum vefmyndavélar og gervitunglamyndir. Staðsetning er við Fagradalsfjall. .Lítill órói sást á mælum.

Biðla til fólks að vera heima

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir að það sé engin hætta á ferð en biðlar til fólks að vera ekki á ferð á svæðinu. Sérfæðingar þurfi að komast leiðar sinnar og að geta unnið sitt starf.

„Eins og við erum búin að tala um lengi er engin hætta á ferð en við erum að fara yfir stöðuna. Það er verið að fara að sjá hvernig þetta lítur út,“ segir hún.

Hún segir að landhelgisgæslan muni fara núna í flug til að taka myndir og kanna aðstæður í svokölluðu vísindaflugi.

Enginn fyrirboði

Björn Birgisson, íbúi í Grindavík, segir í samtali við Fréttablaðið að gosið hafi ekki haft hátt á undan sér. Það hafi verið minni skjálftar en ekki stórir skjálftar. Hann var kominn út og ætlaði að reyna að sjá eitthvað.

„Ég er austan við höfnina og mér finnst ég sjá bjarmann frá þessu. Ég er mjög feginn að það er farið að gjósa ef að náttúran ætlar að skipta við okkur og við losnum við skjálftana," segir Björn í samtali við Fréttablaðið rétt í þessu.

Eftir því sem hann keyrði nær sagðist hann sjá bjarmann frá gosinu vel.

Hér á vef Víkurfrétta má sjá mynd þar sem bjarminn frá gosinu sést mjög vel.

Fréttin verður uppfærð.

Eldgos er hafið við Fagradalsfjall. Almannavarnir biðla til fólks að fara ekki nærri gosupptökum. Það er mikilvægt að halda svæðinu öruggu. Vísindamenn eru að störfum að meta stöðuna.

Posted by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra on Friday, 19 March 2021