Eldgos er hafið í Mauna Loa á Havaí í Bandaríkjunum, en um er að ræða eitt stærsta eldfjall heims. Síðast gaus í fjallinu, sem er á stærstu eyju eyjaklasans, árið 1984.
Gosið átti sér þó nokkurn aðdraganda en töluverð jarðskjálftavirkni hefur verið á svæðinu undanfarnar vikur. Mauna Loa er ein stærsta og virkasta eldstöð Jarðar.
Kvikuflæði frá gosinu er ekki talið ógna byggð í nágrenni fjallsins að sinni, en jarðvísindamenn fylgjast vel með framgangi gossins.
Eldgos varð í annarri eldstöð, Kilauea-eldfjallinu, á þessari sömu eyju árið 2018 og skemmdust þá um 700 hús. Hlíðar Mauna Loa eru þó töluvert brattari en hlíðar Kilauea og því gætu íbúar þurft að yfirgefa heimili sín með tiltölulega skömmum fyrirvara.
Í umfjöllun Mirror er bent á að í eldgosi í Mauna Loa árið 1950 hafi kvikan ferðast 24 kílómetra leið til sjávar á aðeins þremur klukkustundum.