Eld­gos er hafið á Reykja­nes­skaga. Kvika hefur náð upp á yfir­borð jarðar. Neyðarstig almannavarna hefur verið virkjað vegna gossins og hefur blaðamannafundur verið boðaður kl. 17:30.

Við fyrstu sýn virðist gossprungan vera nyrst í Meradölum, nyrst í hrauninu sem myndaðist á síðasta ári. Gossprungan er þegar byrjuð að teygja sig út fyrir hraunbreiðuna í átt til norðurs.

Á blaðamannafundi almannavarna nú kl. 17:30 verða Magnús Tumi Guð­munds­son frá Há­skóla Ís­lands, Elín Björk Jónas­dóttir frá Veður­stofu Ís­lands og Víðir Reynis­son frá Al­manna­vörnum og munu þau fara yfir þær upp­lýsingar sem fengust í yfir­lits­ferð þeirra í dag yfir gossvæðið.

Aðdragandann þekkja flestir en jörðin hefur nötrað á skaganum undanfarna daga. Nú síðast í hádeginu skalf jörðin við Kleifarvatn í skjálfta upp á 3,4 að stærð.

Björgunarsveitir eru mættar á svæðið og verður vegum að gossvæðinu lokað í samráði við almannavarnir.

Ein af fyrstu myndunum af eldgosinu í Merardölum á Reykjanesi sem hófst fyrr í dag.
Mynd/Jarðvísindastofnun

Neyðarstig virkjað

Í tilkynningu frá almannavörnum sem barst nú á þriðja tímanum kemur fram að neyðarstig almannavarna hafi verið virkjað.

„Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar eru innviðir ekki í hættu en fólk er vinsamlegast beðið um að halda sig frá svæðinu og huga vel að hættu vegna mögulegrar gasmengunar,“ segir í tilkynningunni.

Þá biðla almannavarnir sem og lögreglan til fólks um að skoða gosið á vefmyndavélum en fara ekki af stað að skoða. „Það er mikilvægt að halda svæðinu öruggu. Vísindamenn eru að störfum að meta stöðuna,“ segir í tilkynningunni.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er þó nokkur umferð af fólki á leið á gosstöðvar til að berja nýja gosið augum.

Fylgjast má með gosinu í beinni hér að neðan:

Jarðfræðingar hafa ítrekað það síðustu daga að nýtt gostímabil sé hafið á Reykjanesskaga.

Gosið sem um ræðir nú er annað gosið á skaganum síðastliðin tvö ár en í fyrra hófst gos eins og allir landsmenn vita í Geldingadölum í mars. Því gosi lauk opinberlega í desember síðastliðnum, 2021.

Gróf staðsetning gossins á korti út frá ljósmyndum sem Halldór Björnsson á Veðurstofu Íslands tók úr þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Kort/Veðurstofa Íslands

Yfirvöld meta stöðuna

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, hafði áður sagt, rétt eftir að gos hófst í samtali við Fréttablaðið að yfirvöld væru meta stöðuna.

„Nú eru bara næstu skref að fara skoða staðsetningu og við erum í mikilli samvinnu við Veðurstofu. Væntanlega fer núna þyrla á loft til þess að taka þetta út.“

Á að loka svæðinu?

„Það er allt að fara af stað í ákvörðunum og ég held að við vinnum það í samvinnu við lögreglustjórann á Suðurnesjum. Við erum að koma okkur í viðbragðsstöður, bara eins og við þekkjum öll. Þetta er byrjað aftur.“

Í tilkynningu frá almannavörnum er fólk beðið um að fara með gát á svæðinu. Staðsetningin sé innan þess svæðis sem síðast gaus á. Þá segir í tilkynningunni að vísindafólk sé á leiðinni á staðinn með þyrlu landhelgisgæslunnar til að leggja mat á stöðuna. Fólk er beðið um að fara með gát og forðast að vera á þessu svæði.

Gas frá jarðeldinum

Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands kemur fram að eldgosið sé í vestanverðum Merardölum um 1,5 kílómetrum norður af Stóra-Hrút. „

„Og jarðeldurinn virðist koma upp um norðuraustur suðvestur sprungu á þeim stað.

Við fyrstu skoðun á vefmyndavélum virðist kvika hafa komið upp á yfirborð kl 13:18. Gas berst frá jarðeldinum og hafa almannavarnir verið upplýstar um eldgosið.“

Þægilegur staður fyrir gos

Fréttablaðið heyrði í Ármanni Höskuldssyni, jarðskjálftafræðingi vegna gossins.

Hann er himinlifandi með staðsetningu gossins og segir það líklega verða svipað og hið gamla sem gaus í Geldingadölum í fyrra.

„Það mun gjósa í rólegheitunum þarna, mögulega einhverja mánuði eða skemur,“ segir Ármann.

Viðtalið við Ármann í heild sinni.

Líklega heldur hraunið sig í Meradal

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir í samtali við Fréttablaðið að það séu meiri líkur en minni á því að hraunið muni halda sig innan Meradals.

„Fram­leiðnin er mjög lítil þannig það er enginn kraftur í þessu og þetta er ekki að fara búa til neitt gjósku­fall eða neitt svo leiðis. Þetta býr til hraun og sendir gas frá sér. Það er alltaf mögu­leiki að gosið stækki. Við skulum bara vona ekki,“ segir Þor­valdur.

Öflugra gos nú í upphafi

Gosið nú er öflugra í upphafi heldur en gosið sem hófst í Geldingadölum í fyrra. Þetta segir Eldfjalla-og náttúruváhópur Suðurlands.

„Lengdist sprungan verulega fyrsta hálftímann eftir að gossins varð vart og má lauslega áætla að hún sé amk 300-500 metra löng.“

Himinlifandi með köku

Bæjarskrifstofa Grindavíkur skellti sér í köku í tilefni dagsins. Fannar bæjarstjóri ræddi við Fréttablaðið vegna gossins.

„Skjálftarnir virðast undan­farar eld­gosa og það er gott ef við losnum við þá núna,“ segir Fannar.

Fréttin hefur verið uppfærð.