Þó að það hafi dregið aðeins úr jarðskjálftahrinunni á svæðinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga þýðir það ekki endilega að það séu minni líkur á eldgosi, segir Einar Hjörleifsson, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Líkt og greint hefur verið frá hófst ný skjálftahrina við Fagradalsfjall þann 21. desember síðastliðinn. Síðasta sólarhring hefur aðeins dregið úr hrinunni.

Sama munstur

Frá miðnætti hafa um 600 skjálftar mælst á svæðinu sem er mun minna en á sama tíma í gær.

Einar segir að um þremur til fjórum dögum áður en eldgosið í Geldingadölum hófst fyrr á árinu hafi skjálftahrinan sem var í gangi þá, einnig dregist saman. „Við fylgjumst áfram með stöðunni gaumgæfilega.“

Að sögn Einars sé allt eins gert ráð fyrir því að gos geti hafist á svæðinu á næstu dögum. Þó að dregið hafi úr skjálftahrinunni núna þurfi það ekki endilega þýða að eldgos sé að hefjast líkt og síðast.

Þarf ekki að þýða eldgos

Aðspurður hvort möguleiki sé á að skjálftahrinan hætti og að ekkert eldgos verði segir Einar að ekki sé hægt að útiloka að hrinan koðni niður og að þrýstingurinn undir stöðvist.

„Það er ekki útilokað en það er margt sem bendir til þess að það geti hafist gos að nýju. Svo við fylgjumst mjög vel með,“ segir Einar.

Möguleiki á grjóthruni

Í gærmorgun, 27. desember, mældist jarðskjálfti að stærð 3,6 og um hálf eitt leytið í gær mældist annar að stærð 3 um tvo kílómetra vestan við Kleifarvatn.

Jarðskjálftarnir í gær eru túlkaðir sem gikkskjálftar á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að talið sé að orsök þeirra megi rekja til aukins þrýstings við Fagradalsfjall vegna kvikusöfnunar.

Ferðamenn eru hvattir til að sýna aðgát í bröttum hlíðum á svæðinu þar sem gikkskjálftum fylgir gjarnan grjóthrun ásamt því að forðast svæði þar sem grjót getur hrunið.

Frá því að hrinan hófst hafa rúmlega 19 þúsund skjálftar mælst, þar af fjórtán að stærð 4,0 eða stærri.