Eldfjöll losa allt að þrjátíu sinnum meira af gróðurhúsalofttegundum þegar þau liggja í dvala en í gosi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna við Washington-háskóla í Bandaríkjunum sem birt var í tímaritinu Geophysical Research Letters.

Rannsóknin byggir á mælingum á ískjörnum sem boraðir voru upp úr Grænlandsjökli. Í þeim er hægt að lesa sögu loftslagsins árhundruð aftur í tímann og sjá áhrif eldfjalla, þar á meðal íslenskra. Rannsóknin beindist að mælingum á súlfati frá árunum 1200 til 1850, fyrir tíma iðnbyltingarinnar.

Gríðarleg losun verður í hverju eldgosi en langt getur verið á milli þeirra. Á meðan losnar gas upp úr eldstöðinni. Samkvæmt rannsókninni er magnið frá því að vera tífalt í þrjátíufalt. Vitað var að eldfjöll myndu leka gróðurhúsalofttegundum í dvala en rannsóknin sýnir að magnið er þrefalt það sem áður var talið.

Samkvæmt Ursulu Jongebloed, doktorsnema sem leiddi rannsóknina, verður að gera betur ráð fyrir áhrifum eldfjalla í reikniformúlum um loftslagsbreytingar. Þannig verða þau markmið sem mannkynið setur sér nær raunveruleikanum.