Átta hafa nú látist í eldum sem geisa á suðurströnd Tyrklands, samkvæmt frétt Reuters. Fjöldi elda hafa kviknað í landinu á undanförnum fimm dögum og búið er að ná tökum á ríflega hundrað þeirra.
Tveir létust í eldi í borginni Manavgat í dag en einnig brennur í Marmaris og Milas. Tíu til viðbótar hafa verið fluttir á spítala.
Fimm höfðu látist á seinustu dögum í Manavgat og einn í Marmaris. Búið er að rýma nokkur íbúðarsvæði og hótel. Þúsundir manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín.
Slökkviliðsfólk frá Rússlandi, Úkraínu, Íran og Aserbaídsjan aðstoðuðu heimafólk við að berjast við eldinn. Í það minnsta þrettán flugvélar, 45 þyrlur og 828 slökkviliðsbílar hafa tekið þátt í aðgerðunum.
Tyrkneska ríkið hefur heitið því að bæta upp fyrir skaðann sem hefur orðið af eldunum.