Eftir sex mánaða baráttu við spænsk yfirvöld hefur Drífa Björk Linnet Kristjánsdóttir, ekkja Haraldar Loga Hrafnkelssonar, loksins fengið leyfi til að flytja jarðneskar leifar eiginmanns síns til Íslands.

Frá þessu greinir Drífa á Instagram-reikningi sínum.

Haraldur Logi lést í eldsvoða á Tenerife á Spáni þann 6. febrúar síðastliðinn og segir Drífa fjölskylduna bókstaflega búna að liggja á tröppunum hjá lögreglunni í sex mánuði.

„Við erum smá að fagna. Við erum semsagt búnar að fá fréttir um það að við erum að fara fá Halla. Ég var á fundi í morgun og aftur núna seinnipartinn með útfararþjónustu og það lítur allt út fyrir það að á næstu dögum fáum við Halla til okkar,“ greindi Drífa frá á Instagram síðu sinni í gærkvöldi.

Drífa segir spænsk yfirvöld ætla afhenda þeim Harald Loga af mannúðarástæðum þrátt fyrir að málinu sé ekki lokið. Enn hafi ekki upptök eldsins ekki vera fundin.

„Þeir ætla að reyna klóra sig fram úr því að skrifa á dánarvottorðið þó þeir geti ekki nákvæmlega sett á það um hvað þetta snýst. Þeir ætla setja á dánarvottorðið að þetta hafi verið slys en aftur á móti eru upptök eldsins ekki algjörlega komin á hreint,“ sagði Drífa jafnframt á Instagram.

Drífa greindi frá því á Instagram í síðustu viku að andlát eiginmanns hennar hafi ekki borið að með saknæmum hætti.

Eldur hafi komið upp í húsi þeirra á Tenerife þann 6. febrúar síðastliðinn hafi hún hringt á slökkvilið og lögreglu sem náðu að ráða niðurlögum eldsins.

Í kjölfarið hafi henni verið tilkynnt að eiginmaður hennar hafi fundist látinn í einni af tveimur bifreiðum fjölskyldunnar í bílskúrnum og að hann hafi strax verið úrskurðaður látinn.

Eftir sex mánaða baráttu fjölskyldunnar lítur nú út fyrir að þau fái loksins að flytja Harald Loga heim

Minningar­at­höfn um Harald Loga verður haldin 23. ágúst næst­komandi en þá hefði hann orðið fimm­tugur.