Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja Armando Beqirai, lýsti deginum sem maðurinn hennar heitinn var myrtur í átakanlegum vitnisburði í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Annar dagur aðalmeðferðar í Rauðagerðismálinu svokallaða fer nú fram en í gær sátu hin fjögur ákærðu, Angjelin Mark Sterka­j, Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, Murat Seli­vrada og Sheptim Qerimi, fyrir svörum. Angjelin hefur játað að hafa skotið Armando til bana en hin þrjú, sem ákærð eru fyrir samverknað að morðinu, neita sök.

Fundu skothylki á götunni

Þóranna Helga sagðist hafa verið að svæfa son sinn og á leiðinni í háttinn þegar hún heyrði hljóð fyrir utan heimili sitt sem hljómaði eins og einhver hefði dottið á bílskúrshurðina. Maður sem bjó á neðri hæðinni hljóp þá upp og sagði Þórönnu að hringja í sjúkrabíl. Fór hún þá niður með drenginn sinn og sá Armando liggjandi fyrir framan bílskúrshurðina. Þóranna og bróðir hennar, sem bjó einnig á neðri hæðinni reyndu þá að hefja endurlífgunartilraunir á meðan þau hringdu í neyðarlínuna. Var sjúkrabíll kominn eftir um þrjár og hálfa mínútu og fóru sjúkraflutningamenn að hefja hjartahnoð þegar í stað.

Viðbragðsaðilar spurðu hvort maðurinn hennar hefði verið stunginn og kom Þóranna alveg af fjöllum. Lögreglumaður á vettvangi tók þá eftir skothylki á götunni og áttaði þá Þóranna sig á því að maðurinn hennar hefði verið skotinn. Reyndu þá viðbragðsaðilar að fá Þórönnu til að fara aftur inn til sín.

„Hann er örugglega dáin og þau vilja ekki segja mér það,“ sagði Þóranna í skýrslutöku sinni en hún taldi að Armando hefði verið á leiðinni inn þegar hann var skotinn þar sem hann lá nálægt innganginum. „Hann lá á bakinu og ég sá ekkert blóð og ég gat ekki ímyndað mér að hann væri dáinn.“

Angjelin segist hafa skotið Armando í sjálfsvörn.
Mynd/Anton Brink

Sá enga byssu

Aðspurð um aðdragandann segir hún að Armando hafi verið mikið í símanum daginn áður og virtust samtölin snúast um deilur milli tveggja aðila. Hún hefði þó aldrei heyrt eiginmann sinn hóta neinum.

„Það er eins og það séu deilur milli tveggja aðila,“ lýsti Þóranna. „Ég er bara að reyna að sætta þetta segir hann og ég spurði hann ekkert út í það.“

Angjelin lýsti því i vitnisburði sínum í gær að Armando hefði tekið haglabyssu upp úr skottinu á bílnum sínum og lagt á hillu í bílskúrnum. Aðspurð sagðist Þóranna ekki kannast við skotvopnið. Hún hafði aldrei tekið eftir byssu í bílskúrnum.

„Ég held að ég hefði vitað það ef það væri skotvopn.“

Þóranna segir að vinir Armando, Vladimir og Dennis, hafi komið heim til hennar um klukkan eitt um nóttina eftir skotárásina en þá var lögreglan á staðnum að vakta bílskúrinn. Aðspurð hvort annar þeirra hafi farið inn í bílskúrinn svaraði Þóranna neitandi. Verjandi Angjelin spurði mikið út í hvort einhver hefði getað farið inn í bílskúrinn og fjarlægt haglabyssuna úr bíl­skúr þeirra hjóna, sem Angj­el­in seg­ir Arm­ando hafi verið með skömmu áður en hann skaut hann til bana.

„Armando talaði um að Murat væri svo þreytandi því hann var alltaf að ljúga. Honum var ekki treystandi.“

Lýsti tengslum mannanna

Bæði Angjelin og Claudia lýstu því að Armando hafi verið tengdur Goran Kristján Stojanovic og öðrum eigenda Top Guard, fyrirtækis sem sinnir dyravörslu og öryggisgæslu. Angjelin heldur því fram að þeir séu valdamiklir menn í undirheimunum. Claudia fékk það hlutverk að fylgjast með bílum fyrir utan Downtown apartments við Rauðarárstíg og láta vita af ferðum Armando.

Aðspurð um Murat sagði Þóranna að Armando hafi þekkt hann í gegnum dyravörsluna. Murat hefði einnig sinnt einhverjum framkvæmdum á heimili þeirra. Murat lýsti því í vitnisburði sínum í gær að Armando hefði verið góður vinur hans og að það væri átakanlegt að vera sakaður um aðild að morði vinar síns. Þóranna tók undir að þeir hefðu verið félagar.

„Þeir voru ekkert bestu vinir en Armando talaði um að Murat væri svo þreytandi því hann var alltaf að ljúga. Honum var ekki treystandi.“

Kvíðir öllum kvöldum

Kolbrún Benediktsdóttir sækjandi bað Þórönnu um að lýsa því hvernig missirinn hafði áhrif á hana. Sagði hún þetta náttúrulega aldrei eitthvað sem hún hefði valdið sér. Nú væri hún ein með tvö börn undir tveggja ára og bíllaus eftir að hafa þurft að selja bíl Armando.

„Ég kvíði öllum kvöldum því þau fara að sofa á sitthvorum tíma. [Sonurinn] er með mikinn aðskilnaðarkvíða.“ Sagði hún umfjöllunin í fjölmiðlum hafa tekið á.