Engar áætlanir virðast liggja fyrir hjá ríkisstjórn Íslands um það hvort afganskir túlkar eða aðrir Afganir sem störfuðu með íslenskum friðargæsluliðum í Afganistan muni eiga kost á að hljóta hæli hér á landi. Tali­banar hafa staðið í leiftursókn gegn afgönskum stjórnvöldum að undanförnu og hafa hertekið fjölda borga.

Talið er að túlkar og aðrir Afganir sem unnið hafa með erlendu hernámsliði og bandalagsríkjum Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins eigi á hættu að lenda í skotlínu Talibana ef þeir verða innlyksa á hernámssvæðum þeirra eða ef Talibanar ná stjórn á landinu öllu.

Frá því að Joe Biden Bandaríkjaforseti tók ákvörðun um að draga bandarískt herlið frá Afganistan hafa mörg ríki sem tóku þátt í innrásinni í Afganistan eða í hernámi og friðargæslu í landinu gert áætlanir um að forða afgönskum túlkum og veita þeim hæli. Biden bauð um 200 afganska túlka og fjölskyldur þeirra velkomin til Bandaríkjanna um mánaðamótin.

Umræða um svipaðar aðgerðir hefur farið fram í nágrannaríkjum Íslands.

Í Danmörku hafa stjórnmálaflokkar á borð við Íhaldsflokkinn, Róttæka vinstriflokkinn, Sósíalíska þjóðarflokkinn og Einingarlistann mælt fyrir því að afganskir túlkar fái hæli í landinu.

Fjórir danskir hershöfðingjar og fyrrum varnarmálastjórar sögðu jafnframt við Politiken að Danmörku bæri siðferðisleg skylda til að tryggja öryggi túlka og annarra samstarfsmanna sem hefðu hjálpað dönskum hermönnum í Afganistan.

Utanríkisráðuneytið hefur ekki skoðað málið
fréttablaðið/gva

Ísland, sem aðildarríki í Atlantshafsbandalaginu, tók þátt í verkefnum alþjóðaliðsins (ISAF) í Afganistan á árunum 2003 til 2013. Meðal annars fóru Íslendingar um skeið með stjórn alþjóðaflugvallarins í Kabúl og sendu friðargæsluliða og þróunarfulltrúa til landsins.

Fyrir liggur í skýrslum friðargæsluliðsins og í frásögnum Íslendinga sem fóru til landsins að unnið var með innfæddum túlkum við starfsemina, en samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins leiddi Ísland ekki verkefni í eigin nafni og réð ekki túlka eða aðra heimamenn til starfa.

„Þau ríki sem leitt hafa verkefni og ráðið til starfa heimamenn sem túlka eða samstarfsmenn í þeim verkefnum, hafa í einhverjum tilfellum boðið þeim skjól og hæli nú þegar verkefninu lýkur,“ kom fram í svari ráðuneytisins.

„Slík boð eru ekki grundvölluð á samkomulagi Atlantshafsbandalagsins og afganskra stjórnvalda. Fleiri dæmi eru um slíkar aðgerðir einstakra ríkja þegar verkefnum á vegum herliðs lýkur í einstökum ríkjum.“

„Fulltrúar Íslands hafa lýst yfir áhyggjum yfir þeirri stöðu sem komin er upp í Afganistan og fylgjast grannt með þróuninni þar í landi. Staðan, og viðbrögð við henni, er reglulega rædd á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og Ísland tekur þátt í þeirri umræðu.“