Ekki er vitað hvar 40 börn með lögheimili í Reykjavík eru með skólavist. Þetta kemur fram í svari Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, en ráðið fundaði í síðustu viku.

Flokkur fólksins lagði fram fyrirspurn um málið í september og segir í svarinu að í mars hafi, samkvæmt Þjóðskrá Íslands, 15.534 börn á grunnskólaaldri verið með lögheimili í Reykjavík. Þar af stunda 13.812 nemendur nám í almennum grunnskólum, 104 í sérskólunum tveimur Klettaskóla og Brúarskóla og 759 í sjálfstætt reknum grunnskólum.

Um 300 börn stunda nám í almennum skólum í öðrum sveitarfélögum og í sjálfstætt reknum grunnskólum utan Reykjavíkur eru samtals 119 reykvísk börn við nám, þar af 12 í sjálfstætt reknum sérskóla.

Ellefu börn eru útskrifuð eða ekki byrjuð í grunnskóla. 374 eru staðsett erlendis. Eftir standa 40 börn sem ekki er vitað hvar eru með skólavist.

Ráðið leitar að börnunum með því að skoða skráningarkerfið sem skóla- og frístundasvið hefur aðgang að, sendir bréf á lögheimili fjölskyldnanna og haft er samband við foreldra í gegnum síma ef símanúmer liggja fyrir. Einnig er aflað upplýsinga frá þjóðskrá. Beri leit ekki árangur eru mál tilkynnt Barnavernd Reykjavíkur.