Þingflokksformenn stjórnarflokkanna þriggja segja að krafa Miðflokksmanna um endurstokkun á nefndarsetu þingsins verði tekin til umræðu. Líklegast þyrfti aðkomu stjórnarflokkanna allra að koma til svo að hægt verði að knýja fram endurstokkun í óþökk annarra stjórnarandstöðuflokka en Miðflokksins. Ekki er víst að Miðflokkurinn myndi græða á enduruppröðun segir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Greint var frá því fyrir helgi að þingmennirnir tveir sem reknir voru úr Flokki fólksins í kjölfar Klaustursmálsins, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, hefðu gengið til liðs við Miðflokkinn. Þrálátur orðrómur um þessa fyrirætlun þingmannanna tveggja hefur svifið yfir vötnum allt frá því að ákvörðun var tekin um að vísa þeim á dyr úr Flokki fólksins.

Breið sátt eða 2/3 þings

Lög um þingsköp kveða á um að ákveða skuli nefndaskipan í upphafi kjörtímabils, og þyrfti því að beita undantekningarákvæði þingskapalaga til að gera það á nýjan leik án breiðrar sáttar. Undantekningarákvæðið gerir ráð fyrir að víkja megi frá þingsköpum með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á þingfundi. Eftir stólaleik í stjórnarandstöðunni er Miðflokkurinn nú stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með tilkomu þingmanna tveggja, og hefur formaður flokksins, forsætisráðherrann fyrrverandi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lýst því í samtali við fjölmiðla að hann telji eðlilegt að nefndarsætum yrði endurúthlutað með tilliti til þess. Flokkur Sigmundar mældist í síðustu könnun með 6,1 prósent fylgi, minnst allra flokka á Alþingi.

Eins og áður segir þyrfti 2/3 hluti þingsins að samþykkja að víkja frá áðurnefndu ákvæði um skipan nefnda. Ef gert er ráð fyrir að stjórnarandstaðan, að Miðflokknum frátöldum, standi saman  gegn slíkum breytingum verða stjórnarflokkarnir þrír að veita þessari tillögu Miðflokksins brautargengi.

Ekki endilega tilefni til endurskoðunar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður þingflokks Vinstri grænna, segir að málið hafi ekki verið rætt á vettvangi þingflokks VG frá því að það kom upp. „Ég sé svo sem ekkert endilega að það sé tilefni til að taka þetta samkomulag upp af því að einn flokkur óskar eftir því,“ segir Bjarkey í samtali við Fréttablaðið í kvöld. „Mér finnst eðlilegt að þetta sé rætt meðal þingflokksformanna og forseta þingsins, það er réttur vettvangur fyrir svona,“ bætir hún við. Aðspurð að sinni eigin skoðun segir Bjarkey að hún ætli ekki að hafa skoðun á því eins og er.

Endurskoðun gerist ekki sjálfkrafa

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Ármannsson, segir að breyting á samsetningu þingflokka leiði ekki sjálfkrafa til þess að það fari fram endurskoðun á nefndaskipan. „Það er enginn mekanismi sem tekur til þess að hægt sé að framkalla svona með einhverri kröfugerð um breytingar. Til þess að þessu sé breytt þarf annaðhvort víðtækt samkomulag í þingi eða meirihluta ákvörðun,“ segir Birgir í samtali við Fréttablaðið.

Birgir segist ekki vita með vissu hvað það sé sem Miðflokksmenn vilja ná fram. „Þeir eru í ágætri stöðu með fjölda nefndarfulltrúa. Nýtt kjör myndi ekki endilega bæta stöðu þeirra. Það myndi ekki endilega leiða til þess að fjölga nefndarsætum flokksins en það myndi kannski leiða til einhverra hrókeringa,“ segir hann. „Auðvitað á svo eftir að fara yfir þetta á vettvangi þingflokksformanna, en mér þætti eðlilegt að stjórnarandstöðuflokkarnir myndu ræða þetta sín á milli fyrst. Þessi tilfærsla á þingmönnum hefur ekki neina breytingu í för með sér á hlutfalli stjórnarþingmanna og stjórnarandstöðu, en hins vegar er valdajafnvægi stjórnarandstöðuflokkanna innbyrðis breytt.“

„Verður að koma í ljós“

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, vill lítið gefa upp um afstöðu sína eða þingflokks Framsóknarmanna. „Þingflokkurinn hefur ekki rætt þetta enn þá en mér finnst að það verði bara að fara eftir þingskapalögum og reglum,“ segir Þórunn. Aðspurð um sína afstöðu vill Þórunn ekkert gefa upp. „Það verður bara að koma í ljós.“