Ekki eru vís­bendingar um aukningu á brott­falli í hópi fram­halds­skóla­nema. Lilja D. Al­freðs­dóttir, mennta- og menningar­mála­ráð­herra, var gestur alls­herjar- og mennta­mála­nefndar al­þingis í morgun, og ræddi þar skóla­kerfið og stöðu nem­enda á tímum CO­VID-19.

Þar kom fram að á skóla­árinu 2019 til 2020 hafi brott­fall í hópi ný­nema verið fjögur prósent saman­borið við skóla­árið 2016 til 2017 þegar það var rúm sjö prósent. Hún sagði að vel væri fylgst með brott­hvarfs­tölum í far­aldrinum. Það væru ekki vís­bendingar um aukið brott­fall en að skóla­stjórn­endur hafi bent á mörg dæmi þess að nem­endur hafi skráð sig úr ein­staka á­föngum. Hún sagði á­hrif þess á náms­fram­vindu enn ó­ljós.

„Við getum ekki sagt á þessum tíma­punkti hvernig haust­misserið kemur út, en erum þó að beita sömu nálgun og sömu að­gerðum og ef eitt­hvað er þá er verið að bæta í alla þjónustu á fram­halds­skóla­stiginu,“ sagði Lilja.

Þá kom einnig fram í máli hennar að mæting nem­enda hafi verið miklu betri það skóla­árið en fólk hafði óttast og að það sama megi segja um náms­árangur.

Hún sagði að bæði kennarar og nem­endur hafi til­einkað sér nýja tækni til kennslu og náms en í­trekaði að þörfin á auknu fé­lags­lífi væri brýn enda væri fé­lags­þroski mikil­vægur þáttur í menntun fram­halds­skóla­nema.

„Það er alveg ljóst að það er fé­lags­lífið og þessi sam­skipti á milli nem­enda sem leggst ekki vel í nem­endur. Að geta ekki verið í beinum tengslum við aðra nem­endur,“ sagði Lilja.

Lilja svaraði einnig spurningum nefndar­manna á fundinum um líðan nem­enda og um opnun fram­halds­skóla í næstu bylgjum far­aldursins. Hún sagði að allt kapp yrði lagt á að halda fram­halds­skólunum opnum ef far­aldurinn fer aftur á flug.

Hægt er að horfa á fundinn í heild sinni hér á heima­síðu al­þingis.