Neyðarstigi var lýst yfir um helgina og í gær lágu 58 sjúklingur á spítalanum með COVID-19.

Lokað var fyrir allar valkvæðar aðgerðir í fyrstu bylgju faraldursins. Í fyrirmælunum nú, sem gilda til 15. nóvember, eru heimilaðar aðgerðir með staðdeyfingu en ekki svæfingu. Tekið er fram að heimilt sé að gera bráðaaðgerðir sem geti ekki beðið í átta vikur. Valkvæðar aðgerðir geti kallað á komur á bráðamóttöku eða innlögn á spítalann sem auki álag.

Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuhússins, segir að ekki hafi verið sýnt fram á gögn um nauðsyn þess að loka á aðgerðirnar.

„Það er ekki stuðst við nein gögn. Það eru engar tölur um það að starfsemi okkar valdi álagi á spítalana. Einu tölulegu gögnin sem við vitum um er rannsókn sem var gerð á árunum 2012 til 2015 á tíðni sýkingar í speglunum hjá okkur, hún var 0,2 prósent, sem er langt undir viðmiði og mjög góður árangur. Það er ekki þar með sagt að þessir fáu sjúklingar hafi þurft að leggjast inn á spítala,“ segir Dagný.

„Breytingin frá því í fyrri lokun er að nú megum við gera aðgerðir með staðdeyfingu. Það er aðeins lítið brot, við náum stundum að hafa eina stofu opna. Þannig náum við að leysa vandamál hjá nokkrum. Það er talað um ífarandi aðgerðir, það er ekki skilgreint hvað það þýðir nákvæmlega og hafa menn mismunandi skilning á því,“ segir Dagný enn fremur.