„Við finnum fyrir mikilli aukningu í beiðnum sem til okkar koma,“ segir Sigríður Rut Jónsdóttir, formaður Hróa hattar barnavinafélags. En líkt og Fréttablaðið greindi frá síðastliðinn þriðjudag hafa grunnskólar í Reykjanesbæ sótt um styrk til Hróa hattar fyrir 14 nemendur vegna greiðslu skólamáltíða. Sigríður segir að bæði sé aukning í beiðnum vegna greiðslu skólamáltíða og skólaferðalaga.

„Við erum að fá beiðnir af öllu landinu en sjáum samt svæðaskiptingu í þessu. Það virðist vera þannig að sum sveitarfélög séu betur til þess fallin að klára þessi mál en önnur,“ segir Sigríður. „En við tökum glöð við öllum þessum beiðnum og erum ánægð með það að geta hjálpað.“

Valgerður Björk Pálsdóttir, formaður fræðslusviðs Reykjanesbæjar, segir að þeim sem ekki hafi staðið í skilum með greiðslur vegna skólamáltíða hafi ekki fjölgað, heldur sé fjöldinn svipaður og síðastliðin ár.

Fram hafi komið á fundi fræðsluráðs í síðustu viku að loka hafi þurft 12 áskriftum en samkvæmt uppfærðum upplýsingum frá Skólamat, sem sér um skólamáltíðir í grunnskólum bæjarins, hafi þurft að tilkynna foreldrum um lokun fimm áskrifta það sem af er skólaári. Það séu tölur sem svipi til síðustu ára.

Hún segir þó að ekki verði lokað á nein börn með afgreiðslu á mat. „Reykjanesbær hefur greitt fyrir áskriftirnar út október, svo hafa skólarnir sótt um styrk til Hróa hattar.“